Íslendingar gefast upp
Íshús Njarðvíkur hefur gefist upp við björgun togarans Guðrúnar Gísladóttur af hafsbotni við Noreg. Ekki tókst að fjármagna framhald verkefnisins. Að sögn norska ríkisútvarpsins hafa yfirvöldum þegar borist tilboð frá þremur fyrirtækjum um að lyfta skipinu af hafsbotni. Útvarpsstöðin segir að norska köfunarfyrirtækið hugleiði að lögsækja Íslendingana sem réðu fyrirtækið til að taka þátt í björgunarverkefninu. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Kafarafyrirtækið er sagt eiga að minnsta kosti 50 milljónir króna inni vegna vinnu starfsmanna sinna. Hið glænýja fjölveiðiskip Guðrún Gísladóttir sökk í júní í fyrra eftir að hafa steytt á skeri sem ekki var á sjókortum. Útgerðarfélagið Festi í Grindavík fékk verðmæti skipsins, yfir 2 milljarða króna, greitt út frá Tryggingamiðstöðinni og erlendum endurtryggingaraðilum. Íshús Njarðvíkur keypti flakið og hefur unnið að björgun þess með mörgum hléum frá í fyrra. Tekist hafði að rétta skipið við á hafsbotni áður en fjármögnun verksins fór endanlega út um þúfur.
Kostnaður er sagður vera kominn yfir 200 milljónir. Norska ríkið hyggst krefja Festi um greiðslu vegna kostnaðar við að fjarlægja flakið.