Íslendingar á „veðurflótta“ hvattir til að bóka bílastæði við Keflavíkurflugvöll
Nú er álagstímabil hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og ef marka má umræðuna um sumarveðrið á stórum hluta landsins má ætla að töluvert verði um að Íslendingar leggi í ferðalög til útlanda í júlí og ágúst. Það má því búast við því að bílastæði við flugvöllinn verði þétt setin á næstu vikum.
Til þess að tryggja sér bílastæði eru farþegar hvattir til að bóka bílastæði á netinu fyrir brottför. Bókunarkerfi á nýjum vef Isavia var tekið í gagnið fyrr á þessu ári en þar er hægt að tryggja sér bílastæði á sama tíma og ferð er bókuð og þá á betri kjörum en þegar greitt er við hlið.
Gott að mæta tímanlega á flugvöllinn
„Við bendum farþegum á að huga að því að mæta fyrr í innritun ef þeir eiga flug bókað á álagstímum. Álagstoppar við brottför frá Keflavíkurflugvelli eru á morgnana á milli 6:00-8:30 og í eftirmiðdaginn á milli kl. 15:00-17:30. Að auki er vert að benda á að mest er umferðin á fimmtudögum og sunnudögum. Við bendum farþegum sem eiga flug bókað á þessum tímum að vera mættir 2-3 tímum fyrir brottför. Mismunandi er hvenær flugfélög opna fyrir innritun en almennt er það um 2-3 klukkustundum fyrir brottför. Þá bendum við einnig á sjálfsafgreiðslustöðvar í flugstöðinni þar sem farþegar geta sjálfir innritað sig, auk þess sem hægt er að skila töskum við sjálfsinnritunarborð sem eru alltaf opin,“ segir í tilkynningu frá Isavia.