Isavia úthlutar 20 styrkjum úr samfélagssjóði

Isavia hefur úthlutað styrkjum til 20 verkefna úr samfélagssjóði sínum. Verkefnin eru af fjölbreyttum toga. Við val á styrkþegum er áhersla er lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári og ætíð berst nokkuð mikill fjöldi umsókna. Verkefnin sem fengu styrk að þessu sinni eru:
 
Erumenn
Styrkur vegna myndlistarsýningar í Listasafni Árnesinga. Sýningin er marglaga margmiðlunarsýning á verkum Sigrúnar Harðardóttur.
 
Félag um stofnun lýðháskóla á Flateyri
Styrkur til að skapa nýjan og nánast óþekktan valkost í íslensku menntakerfi.
 
Foreldrahús – Vímulaus æska
Styrkur vegna V.E.R.A. sem er úrræði sem Foreldrahús hefur boðið upp á fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 til 17 ára sem eru með áhættuhegðun og fjölskyldur þeirra.
 
GL Einstefna
Styrkur vegna heimildarmyndar um rafstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Rakin er saga orkunotkunar á flugvellinum. Greint er frá því þegar öllu orkukerfinu var breytt í 50 riða 220 volta straum og aðkomu Isavia að því verkefni.
 
Heimili og skóli – landssamtök foreldra
Styrkur vegna fræðsluherferðar fyrir skólaárið 2018-2019 um einelti, vináttu og samskiptafærni.
 
Hinsegin kórinn
Styrkur vegna uppfærslu á heimasíðu kórsins. Markmið Hinsegin kórsins er að stuðla að þátttöku og sýnileika hinsegin fólks í menningarlífi landsins.
 
Jafnréttishús
Styrkur til forvarnar- og æskulýðsstarfs.
 
Keilir
Styrkur vegna kaupa á allt að 12 litlum vélmennum til kennslu ungmenna til að búa nemendur undir virka þátttöku í fjórðu iðnbyltingunni.
 
Knattspyrnufélagið Reynir Sandgerði
Styrkur til barna- og unglingaráðs félagsins.
 
Músík í Mývatnssveit
Styrkur vegna klassískra tónleika sem Músík í Mývatnssveit hefur staðið fyrir í Mývatnssveit, Reykjahlíðarkirkju og á Skútustöðum um páska. Tónleikarnir eru til eflingar á menningartengdri ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
 
Sandgerðisbær
Styrkur vegna útgáfu Forvarnarteymis Sandgerðis, Garðs og Voga á segul með viðmiðunartíma fyrir skjánotkun miðað við aldur barna.
 
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir
Styrkur vegna menningarviku um Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu (1918-1994) sem haldin verður í ágúst. Þá verður skáldkonan og verk hennar kynnt.
 
Sjálfboðaliðasamtökin Heilsubærinn Bolungarvík
Styrkur til endurbyggingar körfuboltavallarins í Bolungarvík og til verkefnisins „Hjólað óháð aldri“.
 
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Styrkur vegna skógræktarverkefnis í Hamranesi í Hafnarfirði. Þar voru áður öskuhaugar sem var lokað 1990.
 
Steinbogi kvikmyndagerð
Styrkur til gerðar heimildarmyndar um bandarísku sprengjuflugvélina B24D Liberator sem fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi fyrir 75 árum. Einnig styrkur til að taka upp minningarathöfn vegna þess að 75 eru liðin frá slysinu.
 
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur
Styrkur vegna útgáfu á danskri þýðingu á bókinni Tungumálin ljúka upp heiminum – Orð handa Vígdísi. Þýðingin er gefin út í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands í ár. Bókin inniheldur 27 texta eftir marga af þekktustu samtímahöfundum Íslands.
 
Team Spark
Styrkur í umhverfisverkefni á vegum Team Spark þar sem nemendur í Háskóla Íslands þróa á ári hverju eins manns rafmagnskappakstursbíl sem keppir síðan í árlegri alþjóðlegri hönnunar- og kappaksturskeppni. Í Team Spark er mikið lagt upp úr endurnýtanleika og sjálfbærni. Nemendum er kennt mikilvægi þess að vernda jörðina.
 
Ungmennafélag Grindavíkur
Styrkur til forvarnar- og félagssjóðs UMFG sem hefur haft það að markmiði að styðja og styrkja ungmenni á aldrinum 6 til 16 ára til íþróttaiðkunar með því að greiða æfingagjöld þeirra sem þurfa. Þá hefur sjóðurinn staðið fyrir forvarnarverkefnum fyrir ungmenni.
 
Veraldarvinir
Styrkur vegna umhverfisverkefnisins „Burt með plastið – hreinsum Ísland“.
 
Þróttur Vogunum
Styrkur til að efla innviði barna- og unglingastarfs Þróttar.