Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Isavia setur upp hljóðmæla vegna aukinnar umferðar
Föstudagur 29. júlí 2016 kl. 16:18

Isavia setur upp hljóðmæla vegna aukinnar umferðar

Isavia hefur ákveðið að setja upp rauntímamæla sem mæla hljóðmengun frá flugumferð. Þannig verður hægt að fylgjast með mælingum þeirra á vef Isavia. Farið er í þessar aðgerðir til þess að bregðast við framkvæmdum sem standa yfir á flugbrautum sem valda því að flugumferð hefur aukist talsvert yfir íbúðarbyggð í Njarðvík.

Hér að neðan má sjá frétt af vef Isavia:

Nú standa yfir endurbætur á norður-suður flugbraut Keflavíkurflugvallar og því fer nær öll flugumferð nú um austur-vestur brautina. Endurbætur sem þessar þarf að gera á flugbrautum Keflavíkurflugvallar á 15-20 ára fresti. Stefnt er að því að þessum framkvæmdum ljúki í síðasta lagi í október og þá verður norður-suður brautin aftur tekin í notkun. Sumarið 2017 verður austur-vestur flugbrautin malbikuð og þá mun nær öll umferð fara um norður-suður flugbrautina og þar af leiðandi verður ónæði af flugi mun minna fyrir íbúa Njarðvíkur næsta sumar. Undir venjulegum kringumstæðum, þegar báðar brautir eru í notkun fer meirihluti flugumferðar um norður-suður brautina, bæði er þetta vegna ríkjandi vindátta á svæðinu og einnig til þess að lágmarka flug yfir íbúabyggð eins og kostur er.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessum framkvæmdum fylgir óhjákvæmilega aukin flugumferð yfir íbúabyggð í Njarðvík. Nú á meðan á framkvæmdum stendur hefur verið reynt eftir fremsta megni að lágmarka flugumferð yfir byggð og þá sérstaklega flugtök, sem eru hávaðasamari en lendingar. Veðuraðstæður og umferðarskipulag á flugvellinum skiptir þó einnig máli og því er ekki hægt að koma í veg fyrir að umferð fari yfir byggð. Einnig er því þannig háttað að þegar flugtök eru til vesturs þá er brautin í notkun í þá stefnu og lendingar á þeim tíma þurfa því að vera úr austri til vesturs og fara því yfir byggð, sömuleiðis eru lendingar ekki yfir byggð þegar aðstæður eru þannig að flugtök þurfa að fara yfir byggð. 

Isavia hefur átt nokkra góða fundi með fulltrúum Reykjanesbæjar og notendum Keflavíkurflugvallar til þess að kynna þessar framkvæmdir og áhrif þeirra. Samstarfið hefur verið gott og allir hafa reynt sitt besta til þess að lágmarka flug yfir byggð eins og kostur er og lágmarka hljóðmengun í þau skipti sem fljúga þarf yfir byggð. Í vor voru til dæmis þau tilmæli send flugfélögum að nota hávaðamildandi aðferðir við brottflug yfir íbúabyggð meðal annars með því að beita hreyflum á ákveðinn hátt. Nú er gott tækifæri til þess að fara yfir hvernig gengið hefur og ef þörf er á, að skerpa á þessum aðgerðum bæði við starfsfólk Isavia og notendur flugvallarins.

Það dylst engum að flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og því fylgir bæði stóraukin atvinnustarfsemi tengd flugi og að sjálfsögðu líka aukið ónæði. Endurbæturnar á norður-suður flugbrautinni hafa svo í för með sér að þessi metumferð sem er þetta sumar fer í auknum mæli yfir byggðina í Njarðvík. Þetta ástand mun vara þangað til í október en næsta sumar verður eins og áður segir að sama skapi nánast engin umferð yfir byggð í Njarðvík vegna þess að þá verður austur-vestur brautin lítið notuð vegna sams konar endurbóta og nú standa yfir við norður-suður brautina.

Hávaðamælar verða settir upp

Til þess að íbúar geti betur fylgst með hljóðmengun frá flugumferð hefur Isavia ákveðið að setja upp rauntímamæla sem mæla hljóðmengun frá flugumferð. Þegar rauntímamælarnir hafa verið settir upp verður hægt að fylgjast með mælingum þeirra á vef Isavia. Þangað til rauntímamælarnir verða settir upp hefur Isavia tekið á leigu hljóðmæli sem félagið mun nota til þess að fylgjast betur með hljóðmengun frá flugumferð og gera prófanir sem miða að því að minnka ónæði af völdum flugumferðar yfir byggð. Ef þessar prófanir skila árangri verður þá hægt að gera breytingar á flugferlum í takt við þær.