Isavia hlýtur gullmerki jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn
Isavia hefur hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn. Úttektin staðfestir að launajafnrétti er hjá Isavia og munur innan við 3,5% á milli kynja. Niðurstaðan er í takt við jafnréttisáætlun félagsins sem hefur það að markmiði að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundin mismunun eigi sér stað. Isavia hefur lagt mikla áherslu á jöfn laun kvenna og sú áhersla hefur skilað árangri.
Jafnlaunaúttekt PwC greinir kynbundinn launamun innan fyrirtækja þegar tekið hefur verið tillit til annarra þátta sem hafa áhrif á laun, s.s. menntunar, starfsaldurs, starfaflokks og vinnustunda. Þannig veitir hún upplýsingar um raunverulegan launamun kynjanna hjá fyrirtækinu.
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia: „Það er gríðarlega ánægjulegt að fá gullmerkið í annað sinn. Ég get þó ekki sagt að það komi á óvart, enda höfum við alla tíð unnið eftir launastefnu og jafnréttisstefnu sem miðar að jafnrétti. Miðað við launakannanir á Íslandi er það greinilega ekki sjálfsagt mál að enginn munur sé á launum kynjanna, þó það ætti að vera þannig. Við hjá Isavia vonum að þetta verði hvatning til þess að önnur fyrirtæki stigi þetta skref, við höfum farið í gegnum þetta og vitum hvað þarf til og það sem skiptir mestu máli er að taka ákvörðun og ráðast svo í að jafna mun ef hann er til staðar.“