Isavia biðst afsökunar á ónæði frá flugumferð
Í aðsendri grein í Víkurfréttum í síðustu viku bað Isavia íbúa á Suðurnesjum afsökunar á ónæði frá flugi við Keflavíkurflugvöll í sumar. Framkvæmdir við norður-suður flugbraut hafa staðið yfir í sumar en að öllu jöfnu fara um 60 prósent af flugumferð um þá braut, meðal annars vegna ríkjandi vindátta og eins til að lagmarka flug yfir byggð. Vegna framkvæmda við brautina í sumar hefur nánast öll flugumferð farið um austur-vestur flugbrautina og segir í grein Isavia að reynt hafi verið eftir fremsta megni að beina flugvélum í flugtak til vesturs og út á sjó til þess að minnka flug yfir byggð. Áætlað er að framkvæmdunum ljúki um miðjan október.
Íbúar í Reykjanesbæ og Vogum hafa kvartað yfir hávaða vegna flugumferðinnar og hafa bæjaryfirvöld í báðum sveitarfélögum fjallað um málið. Í grein Isavia segir meðal annars að fyrirtækið vilji ítreka þann vilja sinn að sú starfsemi sem fram fer á Keflavíkurflugvelli sé í sem mestri og bestri sátt við nærsamfélagið. „Þær aðstæður sem uppi eru núna hvað snertir viðhaldsþörf, sem og aukningu á flugumferð á tímum sem hún var mjög takmörkuð, bjóða upp á nýjan raunveruleika fyrir okkur öll. Því miður þá sáum við og notendur flugvallarins ekki fyrir alla áhrifaþætti og vanmátum aðra en við munum að afloknu þessu sumri standa uppi með öruggari og betri flugvöll sem mun þjóna betur okkar gestum sem og landsmönnum öllum og það viljum við gera í góðri sátt við íbúa nærsveitarfélagana. Það er enn á ný tilefni til þess að biðjast afsökunar á því hve mikil áhrifin hafa verið af núverandi framkvæmdum og við tökum það auðvitað til okkar sem við höfum heyrt að íbúar hefðu viljað meiri og tíðari upplýsingar um framkvæmdina, áhrifin og framvinduna. Á sama tíma er full ástæða til þess að líta björtum augum fram á við til þess tíma þegar betrumbætt og öruggari flugbraut verður opnuð.“
Grein Isavia í heild sinni má lesa hér.