ÍSAL styrkir starfsmannahópinn á Suðurnesjum
Jón Kr. Gíslanson er kunnur körfuboltakappi úr Keflavík en hann starfar nú við að halda námskeið fyrir starfsfólk ÍSAL. Hluti námskeiðsins felst í að hópurinn fer í dagsferð til Keflavíkur þar sem hópurinn vinnur ýmis verkefni og skoðar Reykjanesið.„Fyrirtæki eru sífellt að gera sér betur grein fyrir mikilvægi sterkrar liðsheildar og til þess að efla liðsheildina hef ég farið með10 - 20 manna hópa í dagsferðir til Keflavíkur í ferð sem við köllum Rúntur á Reykjanesbraut-Efling liðsheildar“, segir Jón Kr.Að sögn Jóns er markmiðið með þessum ferðum að fá starfsfólk til þess að íhuga hvernigvinnustaðurinn þeirra er og ennfremur að efla samheldnina í hverjum hóp.„Mannauðsstjórnun er vinsælt hugtak í dag, sem þýðir í raun m.a. að verið sé að horfa til framtíðar í starfsmannamálum í tengslum við símenntun og fræðslu. Þetta er einn liður ÍSAL í að styrkja starfsmannahópinn“, segir Jón. Dagurinn hefst með fyrirlestri á Flug Hóteli, um mikilvægi samvinnu, góðrar liðsheildar og góðs vinnuanda. Síðan er hópnum skipt í smærri hópa þar sem menn velta fyrir sér vinnustaðnum sínum, hvað megi bæta og hverjir kostir vinnustaðarins eru. Ennfremur semja hóparnir samskiptareglur og svo fá þeir það verkefni að útbúa listaverk. Eftir fundina á Flug Hóteli fer hópurinn í Reykjaneshöllina og í Röstina að pútta með öldruðum. „Starfsmenn hafa lýst yfir mikilli ánægju með þessar ferðir og finnst þeim skemmtilegt að koma til Keflavíkur. Fæstir gefa sér tíma til þess að renna í gegnum bæinn þegar þeir t.d. halda til útlanda. Ég er búinn að koma með 9 hópa til Keflavíkur og verða þeir sennilega 15 á þessu ári, eða um 250 manns. Þegar ég velti því fyrir mér hvert heppilegt væri að fara með hópana þótti mér við hæfi að fara til Keflavíkur þar sem ég væri á heimavelli“, segir Jón.