Ísak Ernir sækist eftir 5.-6. sæti
Ísak Ernir Kristinsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 5.- 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem fram fer 1. mars nk.
„Ég er nýstúdent og hef undanfarin ár verið virkur í félagsmálum í Reykjanesbæ einkum í gegnum störf mín fyrir Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég gengdi formennsku skólaárið 2012 - 2013. Ég hef fengið tækifæri til þess að vinna með bæjaryfirvöldum, m.a. á sviði forvarna sem ég tel afar mikilvægan málaflokk. Að mínu mati er mjög skynsamlegt að laða ungt fólk til áhrifa við stjórn sveitarfélagsins enda er það í rökréttu samhengi við aldurssamsetningu bæjarbúa,“ segir Ísak Ernir í tilkynningu til Víkurfrétta.
Þá segir hann: „Hvað varðar atvinnuuppbyggingu sé ég mikil tækifæri hér í bæ sem er ekki síst mikilvægt ungu fólki í leit að farsælli framtíð. Saman getum við þannig byggt upp gott samfélag þar sem allir fá jöfn tækifæri til þess að blómstra, afla sér menntunar og njóta góðrar þjónustu“.