Ísak Ernir býður sig fram í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokks
Ísak Ernir Kristinsson, 23 ára úr Reykjanesbæ, gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hann er verkefnastjóri og nemi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Auk þess rekur hann lítið gistiheimili ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ.
Ísak hefur verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins frá 16 ára aldri og gegnt hinum ýmsum störfum fyrir flokkinn og meðal annars verið formaður Heimis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ og formaður Sjálfstæðisfélags Keflavíkur. Í dag er hann varaformaður Fulltrúaráðs SSF í Reykjanesbæ og á sæti í stjórn SUS. Þá er hann varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og á sæti í Velferðarnefnd bæjarins fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Í tilkynningu frá Ísaki Erni segir að kynslóðin sem hann tilheyrir, sú yngsta á vinnumarkaði, hafi á margan hátt aðra sýn og þarfir en fyrri kynslóðir. „Það er mikilvægt að löggjafaþingið taki mið af þeirra þörfum, sérstaklega þegar kemur að menntamálum, velferðarmálum og húsnæðismálum. Það er mikilvægt að þessi kynslóð eigi sér málsvara á Alþingi. Ég vil vera þeirra fulltrúi. Einnig er mikilvægt að ráðist verði í auknar úrbætur á samgöngukerfinu. Þar hefur fjárfestingaþörfin safnast upp í mörg ár. Að mínu mati er Sjálfstæðisstefnan best til þess fallin að auka vegsæld og aukin tækifæri fyrir ungt fólk. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi,“ segir í tilkynningunni.