Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

InPro opnar starfsstöð á Suðurnesjum
Föstudagur 9. mars 2007 kl. 14:37

InPro opnar starfsstöð á Suðurnesjum

Í upphafi árs hófst fyrirtækið InPro handa við að gera heilsufarsskoðanir á Suðurnesjamönnum eftir að hafa gengið til samstarfs við Hjartaheill á Suðurnesjum. Átakinu Heilsuefling á Suðurnesjum var hrint í framkvæmd en markmiðið með því er að vekja Suðurnesjamenn til umhugsunar með heilsufarsskoðunum og fræðslu ásamt því að bæta lífsstílinn meðal annars með aukinni hreyfingu.

Í kjölfarið opnaði InPro nýverið starfsstöð að Hringbraut 99 í Reykjanesbæ í húsinu sem Lyfja er með sína starfsemi. Með því  er verið að koma til móts við þá einstaklinga sem vilja nýta sér átakið en eru ekki úti á vinnumarkaðinum eða eru einhverra hluta vegna ekki á vinnustaðnum þegar skoðanir fara þar fram.

Í heilsufarsskoðununum er megináherslan lögð á þætti tengda hjarta- og æðasjúkdómum m.a. með blóðþrýstings-, kólesteról- og blóðsykursmælingum. Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa lagt átakinu lið með því að bjóða að  þessar heilsufarsskoðanir séu framkvæmdar inni á vinnustöðunum.

„Heilsueflingu meðal Suðurnesjamanna miðar vel áfram,” segir Sveinbjörg Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur sem stýrir verkefninu. 


„Sveitafélögin hafa flest boðið sínu starfsfólki upp á skoðanir og svo hef ég farið á nokkra stærstu vinnustaðina hérna í Reykjanesbæ. Í dag hafa nokkur hundruð manns fengið heilsufarsskoðun. Þó að heilsueflingarátakið beinist fyrst og fremst að Suðurnesjabúum 40 ára og eldri, þá er öllum velkomið að bóka sig í heilsufarsskoðun hjá okkur.

Átakinu verður haldið áfram allt þetta ár og ég hvet alla sem hafa áhuga á að taka þátt að hafa samband við okkur hjá InPro. Best er að senda póst á [email protected] eða að hringja í síma 555 7600.”

Að sögn Sveinbjargar hefur verið góð aðsókn á fræðslufundi þá sem InPro hefur komið að í Íþróttaakademíunni. Þeir eru haldnir fyrsta og þriðja fimmtudagskvöldið í hverjum mánuði kl. 19:30 - 22:00. 
Bæjarbúum gest þar kostur á að koma í fyrirlestrarsal Íþróttaakademíunnar og hlýða á gagnleg erindi um helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig er fjallað um áhrif hreyfingar á grunnatriðin í þol,- styktar- og liðleikaþjálfun, ásamt fræðslu um næringu og hollustu ýmissa matvæla. Þessi fræðsla er öllum opinn og segir Sveinbjörg aðsóknina hafa verið mjög góða.

Heilsuefling á Suðurnesjum er í samstarfi sveitarfélaga og kjarafélaga á Suðurnesjum, Hjartaheilla, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Fjölbrautarskóla Suðurnesja, Lýðheilsustöðvar, InPro, Íþróttaakademíunnar og líkamsræktarstöðvanna Perlunnar, Lífstíls og Helgasports.

Mynd: Sveinbjörg Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024