Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Innleiðir breytt hugarfar til heilsu
  • Innleiðir breytt hugarfar til heilsu
Laugardagur 17. desember 2016 kl. 06:00

Innleiðir breytt hugarfar til heilsu

- Jóhann Friðrik hjá Nexis heilsueflingu vinnur að heilsueflingu innan samfélaga, fyrirtækja og stofnana

Keflvíkingurinn Jóhann Friðrik Friðriksson hélt til náms í heilbrigðisvísindum í Bandaríkjunum á því herrans ári 2008 og var þar við störf um tíma að námi loknu. Fyrr á árinu stofnaði hann fyrirtækið Nexis heilsuefling sem staðsett er í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. Hann segir starfsemina snúast um að vera nokkurs konar eldvarnareftirlit heilbrigðiskerfisins og að vinna að því að koma í veg fyrir að fólk veikist. „Við erum að innleiða breytt hugarfar og veitum skimun og ráðgjöf til að halda heilsuhraustu fólki áfram heilsuhraustu. Fólk í hinum vestræna heimi glímir við breyttar heilsufarslegar forsendur en lengri lífaldur og aukin tíðni lífsstílssjúkdóma vegur þar þyngst. Því er óhætt að segja að mikilvægi öflugra fyrirbyggjandi aðgerða skipti sköpum í góðri heilsu þjóðarinnar,“ segir hann.

Jóhann vinnur að heilsueflingu innan samfélaga, fyrirtækja og stofnana og segir hann móttökurnar hafa verið góðar. Boðið er upp á heilsufarsmælingar fyrir hvern og einn starfsmann auk þess sem nafnlausar upplýsingar eru nýttar til þess að byggja grunn undir aðgerðir til lengri tíma. „Heilsuefling innan vinnustaða getur skilað miklum árangri ef vel gengur. Hún getur dregið úr veikindum, aukið framleiðni og ánægju starfsfólks þannig að það er óhætt að segja að allir græði.“ Þá segir Jóhann starfsfólk finna að vinnuveitanda sé ekki sama um heilsu þess og að það skipti einnig mjög miklu máli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hæsta hlutfall vaktavinnufólks á Suðurnesjum
Streita er einn af þeim þáttum sem valdið geta veikindum og í einhverjum tilfellum örorku. Streita á sér þó eðlilegar skýringar þegar starfsfólk sinnir störfum þar sem það er undir miklu álagi. Jóhann tekur lögreglumenn sem dæmi. „Það er alltaf hægt að draga úr áhrifum streitu þó svo við náum seint að útrýma henni en virk heilsuefling á vinnustöðum gengur einmitt út á það, að taka á hlutunum áður en skaðinn verður.“

Á Suðurnesjum er hærra hlutfall fólks sem vinnur vaktavinnu en annars staðar og segir Jóhann mikilvægt að gæta að heilsu þess hóps. Í byrjun árs verður haldið námskeið á vegum Nexis heilsueflingar í samstarfi við Miðstöð Símenntunar fyrir fólk sem vinnur vaktavinnu. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að kenna leiðir til að sporna við óæskilegum áhrifum vaktavinnu á heilsuna en hún getur haft líkamleg, andleg og félagsleg áhrif á starfsfólk og aðstandendur þeirra. Jóhann hefur fengið til liðs við sig góðan hóp fyrirlesara og eru þar á meðal Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur úr Garði, Lára G. Sigurðardóttir, læknir hjá Krabbameinsfélaginu og grínistinn Þorsteinn Guðmundsson.

Eflir heilsu íbúa í Reykjanesbæ

Á dögunum var skrifað undir samning á milli Nexis heilsueflingar og Reykjanesbæjar um verkstjórn verkefnisins Heilsueflandi samfélag. Tilgangurinn með verkefninu er að nýta áfram það sem vel hefur verið gert fyrir heilsu íbúa og skapa enn betri grundvöll fyrir heilsueflandi samfélag. „Við ætlum að setja okkur markmið til langs tíma til að bæta heilsu íbúanna á jákvæðan hátt og auðvitað með þeirra samstarfi. Ég hlakka mikið til að taka þátt í að bæta heilsu íbúa Reykjanesbæjar og vonast til þess að hin að sveitarfélögin á Suðurnesjum fylgi í kjölfarið, en mér skilst að Grindavík hafi einmitt sótt um þátttöku nýlega.“ Embætti landlæknis hefur mótað ramma utan um verkefnið en það verður svo sniðið að þörfum hvers og eins samfélags. Níu sveitarfélög á landinu taka nú þátt í verkefninu sem hófst í Mosfellsbæ á sínum tíma.

Samkvæmt lýðheilsuvísum Embættis landlæknis eru ýmsar áskoranir á Suðurnesjum. Jóhann nefnir sem dæmi að reykingar á svæðinu séu mun algengari en annars staðar á landinu. Á Suðurnesjum reykja um 17 prósent fullorðinna en hlutfallið á landsvísu er 12,5 prósent. Jóhann segir því þörf á átaki fyrir Suðurnesin til að minnka reykingar til muna. Ekki er ljóst hverjar ástæðurnar eru en hátt hlutfall vaktavinnufólks gæti verið ein þeirra en samkvæmt rannsóknum er það líklegra til að reykja en fólk í dagvinnu.

Reykingar á rafsígarettum eru nýlegt vandamál. Rannsókn á líðan ungmenna sem unnin var af Rannsóknum og greiningu sýndi að meðal nemenda í 8. til 10. bekk grunnskóla voru rafrettu-reykingar algengastar á Suðurnesjum. Þá hafa rannsóknir sýnt að andleg heilsa íbúa á Suðurnesjum er verri en annars staðar og segir Jóhann aðgengi að heilbrigðisþjónustu mikið áhyggjuefni. „Hér á Suðurnesjum eru fæstir læknar, hjúkrunarfræðingar og hjúkrunarrými miðað við íbúafjölda og það er vissulega áhyggjuefni. Sem íbúar þurfum við að standa vörð um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og efla enn frekar það góða starf sem þar er unnið. Við eigum ekki að sætta okkur við annað.“

Ýmis jákvæð teikn eru þó á lofti og hafa Suðurnesjamenn mælst þeir hamingjusömustu á landsvísu. Þá er ölvunarakstur fátíðari en annars staðar. „Við búum að því að hér er virk íþróttastarfsemi sem birtist okkur meðal annars í góðum árangri skóla af Suðurnesjum í Skólahreysti auk þess sem unglingarnir okkar skara fram úr í skipulagðri hreyfingu. Menntakerfið er gott og aðgangur að hreyfingu sömuleiðis. Hér er frábær aðstaða til útivistar sem er vannýtt. Okkur eru allir vegir færir en í grunninn snýst þetta um breytt viðhorf. Það þurfa ekki allir að fara í ræktina tvisvar sinnum á dag, heldur þarf hver og einn að finna út hvað hentar honum. Við erum ekki öll steypt í sama mótið.“

[email protected]