Innbrotsþjófar við rúmstokkinn
Gísli Reynisson og Helena María Árnadóttir urðu fyrir þeirri óskemmtilegri reynslu að brotist var inn á heimili þeirra að næturlagi um nýliðna verslunarmannahelgi. Helena var sofandi í svefnherberginu ásamt tveimur ungum börnum þeirra, tveggja og fimm ára. Að einhver væri heima virtist ekki skipta þjófanna neinu máli. Þeir fóru m.a. inn í herbergið þar sem Helena og börnin sváfu og stálu símanum hennar af náttborðinu, sem er kannski lýsandi hversu bíræfnir og forhertir menn eru sem þetta stunda. Þjófarnir höfðu auk þess á brott með sér heimilistölvuna og 42 tommu flatsjónvarp.
Var sofandi með börnin í hjónarúminu
Gísli og Helena búa á jarðhæð við Kirkjuveg 15 á horni Aðalgötu og Kirkjuvegar. Svalir íbúðarinnar snúa út að Aðalgötu en þjófarnir fóru inn á þær og komust í gegnum svalahurðina. Innbrotið átti sér stað aðfaranótt mánudags milli klukkan eitt og sjö. Gísli var á næturvakt en Helena María heima með börnin. Þau voru öll sofandi í hjónarúminu.
„Flestum finnst það eiginilega mest sláandi að þeir skyldu fara inn í svefnherbergið til að stela símanum. Það er ótrúlega bíræfið og fólki bregður við þetta. Sumir hafa sagt að sem betur fer hafi þau ekki vaknað við umgang innbrotsþjófanna því maður veit auðvitað ekkert í hvernig ástandi þetta lið var í,“ segir Gísli í samtali við VF.
Ekki er hægt að sjá verksummerki um það hversu margir þjófarnir voru en allavega er ljóst að hér var enginn einn á ferð. Það hlýtur jú að þurfa fleiri en einn til að bera 42ja tommu sjónvarp út úr húsinu og yfir svalavegginn.
Brá alveg svakalega
En hvernig varð Helenu við þegar hún vaknaði um morgunin og uppgötvaði hvað gerst hafði um nóttina á meðan hún og börnin sváfu?
„Mér brá alveg svakalega. Ég var búinn að stilla símann minn á vakningu klukkan sjö því ég átti að mæta í vinnu klukkan átta. Gísli hringd heim tuttugu mínútur yfir sjö og spurði af hverju ég væri ekki vöknuð. Ég fór þá að leita að símanum en fann hann hvergi, hélt kannski að hann hefði dottið einhvers staðar á milli en svo var ekki. Þá ætlaði ég að kíkja á tölvuna en sá að hún var ekki á sínum stað. Mér fannst þetta eitthvað skrýtið og hringdi til baka í Gísla til að spyrja hvort hann hefði tekið tölvuna. Eingöngu tölvan hafði verið tekin en snúrurnar skildar eftir. Hann kvaðst ekki hafa tekið tölvuna og þá fyrst fór maður að uppgötva hvers kyns var og finna sjokkið,“ svarar Helen þegar hún lýsir aðstæðum um morguninn. „Verst var að átta sig á því að einhver hafði komið inn í svefnherbergið,“ bætir hún við.
Gísli kom svo heim skömmu síðar. Hann segist ekki hafa upplifað sama áfallið og Helena þar sem hann var ekki á staðnum, þó vissulega hafi honum verið brugðið. Lögreglan kom svo skömmu síðar á staðinn og undirbjó rannsókn á innbrotinu.
„Maður er kannski farinn að átta sig betur á því núna hversu alvarlegt þetta er,“ segir Gísli.
Erfitt að finna öryggi
En hvaða tilfinningar bærast með manni eftir að hafa orðið fyrir því að ókunnugir fari inn á heimili manns með þessum hætti?
„Fyrst og fremst er erfitt að finna öryggi. Maður upplifir að heimili manns er ekki það sama og áður. Það er ekki sá einkastaður sem það var. Ég er óörugg og er t.d. sífellt að athuga hurðina, hvort hún sé ekki örugglega læst. Ég er jafnvel komin út í bæ þegar ég sný við heim til að athuga hvort ég hafi nokkuð gleymt að læsa,“ svarar Helena.
Þau Gísli og Helena festu nýlega kaup á nýlegri íbúð í Innri-Njarðvík. Þau segjast fastlega reikna með því að láta setja upp öryggiskerfi í nýju íbúðina.
Fjölskyldumyndirnar horfnar
Tölvuna notaði Gísli m.a. til að vinna upplýsingar á aflafréttasíðuna www.aflafrettir.com sem hann hefur haldið úti í nokkur ár. Þá var á heimilistölvunni og símanum mikill fjöldi ljósmynda af börnunum og fjölskyldunni. Gísla og Helena eru sammála um að sárara sé að missa myndirnar og minningarnar sem þær skapa heldur en hlutina sjálfa. Það sé alltaf hægt að fá aðra tölvu, síma og sjónvarp en hitt verði ekki bætt.
Efsta mynd: Gísli og Helena María urðu fyrir barðinu á bíræfnum innbrotsþjófum. VFmynd/elg.
Neðri mynd: Hér fóru þjófarnir inn, fyrst yfir svalahandriðið og svo inn um svalahurðina.
------
Öryggiskerfi og ráðstafanir gegn innbrotsþjófum:
Nágrannavarsla eykur samkennd íbúa
Samkvæmt lauslegri athugun VF bjóða öryggisfyrirtækin fullkomin öryggiskerfi eða heimavarnir fyrir heimili fyrir um 7 þúsund krónur á mánuði. Það gera um 200 krónur á dag eða svipað og verð á gosdrykk. Það er því ekki mjög kostnaðarsamt að koma sér upp heimavörn. Uppsetning kerfanna er nokkuð fyrirhafnarlítil.
Öryggisfyrirtækin hafa bent fólki ýmsar ráðstafanir sem hægt er að gera til að draga úr hættu á innbrotum. Að læsa hurðum og loka gluggum er auðvitað aðalatriðið. Einnig er mikilvægt að hafa ekki verðmæti sjáanleg við glugga sem geta freistað þjófa. Verðmæti eins og reiðhjól, sláttuvélar, grill og annað slíkt ætti maður að geyma innandyra.
Þá hefur fólki verið bent á að tilkynna ekki um ferðalög sín fyrirfram á Facebook eða á öðrum opinverum vettvangi. Einnig að nota útiljós á kvöldin eftir að skyggja tekur, láta líta út fyrir að einhver sé heima, t.d. með aðstoð nágranna sem gæti farið inn í húsið af og til, kveikt ljós eða fært bílinn til í innkeyrslunni og annað í þeim dúr. Þá býður Pósturinn upp á biðpóst sem felst í því að pósturinn berst ekki á meðan fólk er að heiman þannig að bréfalúgan eða póstkassinn fyllist ekki.
Svokölluð nágrannagæsla hefur rutt sér til rúms og hafa íbúar í átta götum Reykjanesbæjar tekið hana upp á síðustu misserum. Þær götur eru sérstaklega merktar með skiltum sem gefa til kynna að þar sé nágrannagæsla. Guðlaugur H. Sigurjónsson,
framkvæmdarstjóri Umhverfis og skipulagssviðs Reykjanesbæjar segir að þótt hún komi ekki stað öryggisgæslu sé litið svo á að hún hafi ákveðinn fælingarmátt.
„Allir sem ég hef hitt tala vel um þetta verkefni, enda er takmarkið með því að auka samkennd íbúa og það hlýtur að vera gott,“ sagði Guðlaugur.