Illviðri á Keflavíkurflugvelli
Illviðri er á Keflavíkurflugvelli, hvöss vestanátt með dimmum éljum og skafrenningi. Veður var gott í nótt en snjókoma og fór að hvessa með frosti snemma í morgun. Áhrifa veðursins gætti nokkuð á flugumferð í morgun sem telst eðlilegt miðað við aðstæður. Seinlega gekk að afísa flugvélarnar vegna mikils skafrennings og tafir urðu sökum snjóþæfings og hálku er flugvélum var ýtt frá landgöngubrúm Leifsstöðvar. Veðrið hefur ekki haft áhrif á flugtök og lendingar og brautum hefur verið haldið opnum þrátt fyrir erfið skilyrði eins og snjó- og hálkuvarnir á Keflavíkurflugvelli miðast við. Frá þessu er greint á vef Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.