Illa nefbrotinn eftir líkamsárás í nótt
Einn maður er illa nefbrotinn eftir líkamsárás í fjölbýlishúsi í Keflavík í nótt. Árásamaðurinn flúði af vettvangi en hann er góðkunningi lögreglunnar og er hans nú leitað. Vitni voru að árásinni. Annar maður er með minni háttar meiðsl en óljóst er á þessari stundu hvernig það átti sér stað. Maðurinn sem fyrir árásinni varð liggur nú á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Lögreglunni barst kvörtun um klukkan hálf fimm í nótt vegna hávaða frá gleðskap í fjölbýlishúsi í Keflavík. Þegar lögreglan kom á staðinn kom í ljós að karlmaður hafi verið laminn í andlitið með glasi eða glösum og var hann vankaður. Hann var fluttur í sjúkrabíl á HSS til skoðunar en þar kom í ljós að um alvarlegt nefbrot var að ræða.
Sigurður Þór Sigurðsson, vakthafandi læknir, sagði líðan mannsins eftir atvikum. „Hann er ekki í alvarlegu ástandi en verður þó hér eitthvað í dag,“ sagði Sigurður.
Loftur Kristjánsson, rannsóknarlögreglumaður í Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að árásarmaðurinn hafi verið gestur í gleðskapnum og hafi beitt glasi eða glösum við árásina. „Við munum taka skýrslur af vitnum í dag og á morgun eftir því hversu brýnt við teljum það vera,“ sagði Loftur. „Hann er einhversstaðar að fela sig fyrir lögreglunni núna,“ sagði Loftur.
Myndin: Frá árásarstaðnum í nótt VF-mynd: Atli Már