Illa frágenginn farmur veldur slysahættu
Svo virðist sem jarðvegur, sem fallið hafði á götuna við hringtorgið við Víkurbraut og Faxabraut, hafi verið valdur að óhappinu í gærkvöld þegar ökumaður bifhjóls missti stjórn á ökutæki sínu, að sögn Hannes H. Gilbert, formanns bifhjólaklúbbsins Arna á Suðurnesjum.
Hannes beinir þeim tilmælum til allra þeirra sem eru að flytja uppgröft um götur bæjarins að gæta þess að ekki hrynji af farminum á göturnar. Ef slíkt gerist megi menn ekki láta hjá líða að hreinsa upp eftir sig, þar sem stórfelld slysahætta skapist af þessu.
„Núna yfir sumartímann er mikill fjöldi mótorhjóla á ferðinni og svona afglöp eins og ég sá við umrætt hringtorg í gær geta leitt til alvarlegra slysa á ökumönnum þeirra“ segir Hannes.
Þess má geta að lögreglan í Keflavík lýsti fyrir helgi eftir grænblárri vörubifreið sem varð völd að tjóni á Reykjanesbraut í byrjun júlí. Malarfarmur var á palli hennar og féll hluti af honum á götuna með þeim afleiðingum að mölin dreifðist um allt og olli töluverðum lakkskemmdum á þremur bílum.
Því virðist því ekki vanþörf á að brýna fyrir mönnum að búa vel um hnútana þegar þeir flytja farm af þessu tagi.
Mynd: Bifhjólamenn eru margir á ferðinni þessa dagana. Einn þeirra slasaðist gærkvöld, að því er virðist vegna þess að möl hafði fallið á götuna.
Mynd úr safni