Illa farið hvalshræ á fjöru
Hval rak á fjöru á Fitjum, skammt norðan við Sandgerði, í fyrrakvöld. Hræið er illa farið en helst er talið að um sé að ræða hrefnu. Einar Arason, sem býr á Klöpp, sá að fuglager var í einhverju æti í fjörunni og þegar hann kannaði málið kom í ljós að hvalshræ hafði rekið að landi. Lét hann Reyni Sveinsson, forstöðumann Fræðasetursins í Sandgerði, og Svein Kára Valdimarsson, forstöðumann Náttúrustofu Suðurnesja, vita. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.Reynir segir að hvalurinn hafi greinilega verið að velkjast lengi á sjó eða í grjóti og sé illa farinn. Þeir félagar telja helst að hræið sé af hrefnu en von er á vísindamönnum frá Hafrannsóknastofnun til að líta nánar á hvalinn og taka sýni.
Ekki hefur verið ákveðið hvað gert verður við hræið en Reynir telur líklegast að það verði dregið á haf út og sökkt því ómögulegt sé að láta það rotna þarna í fallegri fjöru þar sem mikið fuglalíf sé.
Ekki hefur verið ákveðið hvað gert verður við hræið en Reynir telur líklegast að það verði dregið á haf út og sökkt því ómögulegt sé að láta það rotna þarna í fallegri fjöru þar sem mikið fuglalíf sé.