Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

IKEA kemur að uppbyggingu skólastofu framtíðarinnar í Keili
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis
Fimmtudagur 14. febrúar 2019 kl. 06:00

IKEA kemur að uppbyggingu skólastofu framtíðarinnar í Keili

IKEA á Íslandi og Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu upp skólastofu framtíðarinnar sem verður í nýjum Menntaskóla á Ásbrú sem hefst næsta haust. Samkvæmt yfirlýsingunni, sem var undirrituð á UTmessunni í Hörpu þann 9. febrúar síðastliðinn, verður lögð áhersla á þróun námsrýmis sem mun þjóna nemendum í skólum framtíðarinnar.

„Það er okkur sönn ánægja að koma að mótun skólastofu framtíðarinnar með þessum hætti,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. „Starfið sem fer fram á Ásbrú er afar metnaðarfullt og framsækið og það samræmist gildum okkar fullkomlega að taka þátt í að útbúa þægilega og heimilislega aðstöðu þannig að nemendur geti sinnt náminu á sinn hátt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, tekur í sama streng og ítrekar mikilvægi þess að námsumhverfi í skólum sé þróað í nánum tengslum við bæði atvinnulífið og þá nemendur sem því er ætlað að þjónusta: „Í Keili höfum við undanfarin ár unnið náið með samspil námsumhverfis og nýstárlega kennsluhætti. Í því starfi höfum við tekið eftir mikilvægi þess að hlúa enn betur að umgjörð námsins og að þróa námsaðstöðu sem hentar bæði margbreytileika nemendanna og fjölbreytileika námsins. Það að framsækið og öflugt fyrirtæki eins og IKEA sjái tækifæri í því að taka þátt í slíku samstarfi gefur okkur enn betri tækifæri til að mæta þessum kröfum nemenda og þróa með þeim skólastofu framtíðarinnar í Keili.“

Menntaskólinn á ÄSBRO – skólastofa framtíðarinnar

Við erum ólík, innhverf eða félagslega virk, þurfum næði eða þrífumst í umhverfi með öðrum. Það hentar ekki að setja okkur öll í sama boxið. Við erum hreyfanleg, virk og gagnvirk og við viljum ekki að byggingar eða aðstæður skilgreini hvar, hvernig eða hvenær við lærum. Fólk lærir ekki lengur á þeim stöðum sem við höfum fyrirfram skilgreint sem námsaðstöðu. Við lærum þar sem okkur hentar og þegar okkur hentar. Við erum farin að læra alls staðar annars staðar en við skrifborðið á skrifstofunni með bókunum og borðtölvuna. Við lærum við borðstofuborðið, í eldhúsinu, í rúminu, á gólfinu, á kaffihúsinu, með vinum okkar. Við lærum hvar og hvenær sem okkur hentar best.

Það er því ekki nóg að breyta því hvernig námið fer fram, við þurfum líka að endurskilgreina í hvernig umhverfi það fer fram. Ef okkur líkar vel við að læra í hlýlegu, frjóu og fjölbreyttu umhverfi, af hverju eiga þá skólastofurnar að vera kerfisbundin og vélræn uppröðun á borðum og stólum sem beina allri athyglinni að kennaranum. Skólastofurnar okkar eru þannig að breytast úr því að kenn­ar­inn sé í aðal­hlut­verki og nem­end­urn­ir sitja eins og óvirk­ir hlust­end­ur, yfir í lif­andi umhverfi sem virkjar nem­end­ur og þeirra áhugasvið.   


Skólastofa framtíðarinnar verður hluti af Menntaskólanum á Ásbrú þar sem áhersla verður lögð á nútímalegar kennsluaðferðir, svo sem vendinám. Í náminu verða hvorki hefðbundnar kennslustofur né hefðbundin stundatafla heldur munu nemendur sinna námi sínu og verkefnum í skólanum þar sem kennarar verða til staðar og leiðbeina þeim. Skólinn mun byrja seinna í svartasta skammdeginu, nemendur munu nýta rafræn gögn og „Open Source“-námsbækur í stað skólabóka – og það verða engin lokapróf, þess í stað verður fjölbreytt námsmat yfir önnina.