Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Föstudagur 6. október 2000 kl. 11:32

„Íhaldið sveik íbúa Innri-Njarðvíkur“, segir Ólafur Thordersen

Grænáshverfi og framtíðarskipulag í Innri-Njarðvík var til umræðu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðustu viku. Það hefur alltaf verið skoðun minnihlutans að leggja ætti áherslu á íbúðabyggð í Innri-Njarðvík og þjónustu fyrir íbúa þar, frekar en svæði eins og Grænáshverfið sem nú er á teikniborðinu. Það er hins vegar yfirlýst stefna meirihlutans að byrja á því að þétta byggð með því að byggja fyrst upp Grænáshverfið, en aðal- og deiliskipulag fyrir hverfið hefur þegar verið samþykkt af bæjarstjórn. Þegar byggingu Grænaáshverfis lýkur hefst bygging skóla í Innri-Njarðvík og stækkun á leikskólanum Holti. Vill enginn búa í Innri-Njarðvík? Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu á fundi bæjarstjórnar 7. mars sl. að undirbúningur að deiliskipulagi fyrir Innri Njarðvík yrði þegar hafinn og stefnt að 2000 manna blandaðri íbúðabyggð. Tillagan var felld. Nú er verið að vinna að deiliskipulagi fyrir Lágseylu í Innri-Njarðvík en minnihlutinn gagnrýnir það skipulag því þar sé aðeins gert ráð fyrir nokkrum byggingalóðum. „Hætt er við að eftirspurn eftir þessum lóðum verði ekki mjög mikil þar sem ekki er gert ráð fyrir því að þjónusta við íbúana verði bætt samhliða gerð þessa skipulags. Við höfum margbent á að til að gera þetta hverfi eftirsóknarvert þarf að skipuleggja það sem heild, þar sem jafnframt sé gert ráð fyrir uppbyggingu á þjónustu, svo þeir sem hafa hug á að byggja í hverfinu viti að hverju þeir ganga. Vinnubrögð meirihlutans bera því vott um úrræðaleysi í byggingamálum í bænum. Framtíðarsýn vantar, eins og við höfum áður bent á.“ Greinagerðina undirrituðu fulltrúar minnihlutans. Thorkelískóli verður næsti skóli Böðvar Jónsson (D) sagðist ekki kannast við að lítil eftirspurn hefði verið eftir lóðum í Innri-Njarðvík og sagðist vera orðlaus yfir málflutningi minnihlutans. Ólafur Thordersen (S) sagði að þegar meirihlutinn hefði ákveðið að reisa Seyluhverfið árið 1982, þá hafi íbúum verið lofað ákveðinni þjónustu en þau loforð voru svikin. Mikið af þessu fólki hafi því flutt til baka frá Innri-Njarðvík. „Þetta fólk lét íhaldið svíkja sig og mér sýnist sem þið séuð að renna á rassgatið með Grænáshverfið líka“, sagði Ólafur og beindi orðum sínum til meirihlutans. Skúli Þ. Skúlason (B) forseti bæjarstjórnar, neitaði að framtíðarsýn skorti hjá meirihlutanum og benti á því til stuðnings að Innri-Njarðvík væri svo sannarlega á kortinu. Næsti skóli myndi rísa þar, Thorkelískóli, og til stæði að stækka leikskólann Holt um leið og bygginu nýja leikskólans, Hjallatúns, við Krossmóa lýkur. Tími Innri-Njarðvíkur mun koma Kristmundur Ásmundsson (S) sagði að það gleddi sig að heyra að meirihlutinn hefði framtíðarsýn en spurði af hverju lóðaskortur hefði þá verið í bæjarfélaginu undanfarið ár. „Tími Innri-Njarðvíkur er einfaldlega ekki kominn“, sagði Ellert Eiríksson (D) bæjarstjóri „en það er stutt í það. Það er einfaldlega stefna meirihlutans.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024