Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Iðnnám til framtíðar í Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Fimmtudagur 26. maí 2005 kl. 15:18

Iðnnám til framtíðar í Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Iðnsveinafélag Suðurnesja, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Fjölbrautaskóli Suðurnesja eru að hefja átak þar sem hvetja á ófaglærða starfsmenn í iðnaði til að mennta sig í iðngrein.
Forsaga verkefnisins er sú að MSS sótti um styrk árið 2004 til Starfsmenntaráðs til að fara af stað með hvatningarverkefni til hvetja þá sem eru ófaglærðir og starfa í iðnaði til að hefja nám og sækja sér tilskilin réttindi.

Lilja Samúelsdóttir, verkefnisstjóri hjá MSS, sagði í samtali við Víkurfréttir að þessa dagana stæði yfir kynning á verkefninu fyrir þá sem starfa í iðnaði. Skráningar eru þegar farnar að berast, en námið á að byrja í haust.
„Átakið mun taka 3 annir, þ.e.a.s. frá ágúst 2005 - desember 2007. Þegar því tímabili er lokið er gert ráð fyrir að nemandinn geti nýtt sér Fjölbrautaskólann til að ljúka náminu og öðlast réttindin,” sagði Lilja og bætti því við að fyrstu 3 annirnar verður einungis kennt eftir hefðbundin vinnutíma, þ.e.a.s. eftir kl.18. „Þegar þeim er lokið mun kennslutíminn hins vegar verða bundin því formi sem einstaklingurinn kýs, hvort sem dagskóli eða öldungadeild verður fyrir valinu.”

Þó námskeiðið sé að upplagi hugsað fyrir ófaglærða iðnaðarmenn getur hver sem er skráð sig til þátttöku. „Hver sem er getur hafið iðnnám, en þeir sem hafa og eru að starfa í iðnaði hafa reynsluna og er markmiðið að reyna að meta hana inn sem raunhæfni á viðkomandi sviði,” segir Lilja að lokum og bætir því við að öllum sé velkomið að skrá sig og hefja nám nk. haust. 
Þeir sem hafa áhuga á að fræðast meira um verkefnið eða skrá sig er bent á að hafa samband við Miðstöð símenntunar í síma 421 7500.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024