IcelandExpress: Farþegar bíða enn
Farþegar sem fljúga áttu með Iceland Express í gærmorgun frá Kaupmannahöfn bíða þess enn að vélin fari á loft. Matthías Páll Imsland, forstjóri Iceland Express, segir á Vísir.is nú áðan að haldið sé í strangar öryggiskröfur og að ekki sé farið í loft ef flugöryggi sé ógnað.
„Við viljum samt ekki aflýsa flugi fyrr en búið er að láta fullreyna á aðstæður. Við bjóðum því fólki að bíða á vellinum og ef það opnast tækifæri þá látum við vélina fara. En við bjóðum líka fólki að breyta flugmiðanum sínum og fara seinna," segir Matthías. Matthías segir áætlanir gera ráð fyrir að byrjað verði að fljúga frá Kastrup flugvelli núna á ellefta tímanum.
Flug Icelandair raskaðist í óveðrinu í gærmorgun en komst í samt lag þegar leið á daginn.
Mynd: Flugvél Iceland Express á Keflavíkurflugvelli um miðnættið í gær. Víkurfréttamynd