Icelandair pantar nýja tegund af vængjum
Breytingar á flugvélum Icelandair eru í vændum en pantaður hefur verið nýr vængbúnaður á sjö þotur Icelandair. Samkvæmt fréttum á vefsíðu Morgunblaðsins í dag eru vængirnir fyrir vélar af gerðinni Boeing 757-200 en Icelandair er annað flugfélagið í heiminum sem pantar vængbúnað af þessu tagi. Nýbreytnin er sú að svokallaðir „vænglingar“ á enda hvers vængs munu auka sparneytni flugvélanna um 5%.
Það er fyrirtækið Aviation Partners Boeing sem framleiðir vængendana en að þeirra sögn mun fjárfestingin borga sig upp á þremur árum miðað við núverandi verðalag á flugvélaeldsneyti. Af hálfu Icelandair er vonast til að vængbúnaðurinn minnki eldsneytisnotkun um sem svarar 160.000 gallonum á flugvél eða um 640 þúsund lítrum á ári.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair auka vænglingarnir jafnframt stöðugleika flugvélanna og flughæfni.