Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Íbúum að fjölga aftur í Sandgerði
Atvinnuleysi hefur minnkað í Sandgerði, auk þess sem færri þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu.
Laugardagur 30. apríl 2016 kl. 06:00

Íbúum að fjölga aftur í Sandgerði

Viðsnúningur hefur orðið á fasteignamarkaði í Sandgerði og er íbúum þar farið að fjölga eftir fækkun í kjölfar bankahrunsins. Síðasta haust voru 16 prósent eigna í bæjarfélaginu, eða 90 talsins, í eigu Íbúðalánasjóðs. Síðan þá hefur sala eigna í Sandgerði tekið kipp og hefur eignum í eigu sjóðsins fækkað í rúmlega 30 á aðeins átta mánuðum. Fyrir hrun var íbúafjöldi í Sandgerði að nálgast 1700 en fækkaði eins og áður sagði, árin eftir hrun. Að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði, er fjöldinn nú kominn yfir 1600. „Það er mörg jákvæð teikn á lofti í Sandgerði og mikil sala á fasteignum. Smátt og smátt er að færast líf í tómu eignirnar. Það er líka mikið um að fólk sé að lagfæra hús og það er mjög ánægjulegt og breytir ásýnd bæjarfélagsins,“ segir hún.

Ekki er svo komið enn að byrjað sé að byggja ný íbúðarhús en Sigrún segir töluvert um fyrirspurnir frá fyrirtækjum um lóðir til uppbyggingar í nágrenni við Keflavíkurflugvöll. „Bæjarfélagið á töluvert af lóðum fyrir íbúðarhús svo við erum tilbúin þegar til þess kemur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Minnkandi atvinnuleysi
Líkt og víða um land hefur verið töluvert atvinnuleysi í Sandgerði síðan eftir hrun. Það hefur nú minnkað verulega og var 3,4 prósent í lok mars. Atvinnuleysi á landsvísu var á þeim tíma 2,7 prósent. Þá hefur þeim fækkað mikið sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. „Nú í vor höfum við auglýst laus störf við starfsskóla en þangað vantar verkefnastjóra og eins umsjónarmenn á leikjanámskeið. Okkur hafa borist fáar umsóknir og við finnum fyrir því að nóg er af störfum á svæðinu svo færri sækja um störf hjá bænum en áður.“

Aukin umsvif í kringum Keflavíkurflugvöll hafa skilað auknum tekjum í bæjarsjóð Sandgerðis. „Margir Sandgerðingar vinna á flugvellinum og borga útsvarið hingað. Flugvöllurinn er að stærstum hluta í landi Sandgerðis þannig að fasteignagjöld af byggingum þar fara í bæjarsjóð.“ Sigrún segir sveitarfélögin á Suðurnesjum og Isavia hafa átt í viðræðum um markvissa uppbyggingu við Keflavíkurflugvöll með það að markmiði að skapa sameiginlega sýn á skipulagið á svæðinu.

Hjólastígur að Keflavíkurflugvelli
Mikill áhugi er á því hjá bæjaryfirvöldum í Sandgerði að lagður verði hjólastígur frá Sandgerði að flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Sigrún segir stíginn á áætlun til lengri tíma og að fyrir liggi nokkrar tillögur um útfærslu og staðsetningu á honum. Ætlunin er að við flugstöðina tengist stígurinn öðrum stíg sem liggur til Reykjanesbæjar. Framkvæmdir munu þó ekki hefjast í sumar því þá verður áherslan lögð á gatnaframkvæmdir innanbæjar.

Við gerð fjárhagsáætlunar Sandgerðisbæjar til næstu fjögurra ára var markmiðið að stuðla að fjölskylduvænu samfélagi. Til að mynda verður í haust aftur tekin upp móðurmálskennsla fyrir grunnskólanemendur af erlendum uppruna. Slík kennsla var í boði fyrir hrun en hætt vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Önnur nýjung í haust er að bæjarfélagið mun greiða fyrir öll námsgögn grunnskólanemenda. Sigrún segir mikla ánægju meðal bæjarbúa með framtakið. „Það felst ákveðin jöfnun í þessu svo ég hef fundið fyrir því að fólk er ánægt með þetta. Hjá okkur er margt jákvætt framundan og ég held að því sé óhætt að segja að mannlífið í Sandgerði sé mjög gott.“