Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Íbúfundur um uppbyggingu Thorsil í Helguvík
Þriðjudagur 6. október 2015 kl. 09:32

Íbúfundur um uppbyggingu Thorsil í Helguvík

– Óþarfa áhætta fyrir íbúa Reykjanesbæjar

Íbúar Reykjanesbæjar hafa boðað til íbúafundar í kvöld, þriðjudaginn 6. október kl. 20.00, í félagsheimilinu á Mánagrund.

„Áform um uppbyggingu verksmiðju Thorsil í Helguvík stefna lífsgæðum íbúa í Reykjanesbæ í hættu. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar segir að þrátt fyrir að talið sé að styrkur mengunarefna frá verksmiðjunni muni falla innan viðmiðunarmarka muni loftgæði í nágrenninu rýrna umtalsvert. Í álitinu kemur einnig fram að brennisteinsmengun geti farið yfir viðmiðunarmörk og því þurfi að viðhafa sérstakta vöktun í grennd við íbúðabyggðina sem stendur næst Helguvík. Er þessi skerðing á lífsgæðum áhættunnar virði? Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur gefið það í skyn að ef íbúakosningin verði honum ekki að skapi verði ekki hlusta á íbúana. Eru það eðlilegir starfshættir í lýðræðisþjóðfélagi? Þess vegna er ennþá mikilvægara fyrir íbúa bæjarins að taka þátt í kosningunni og láta rödd sína heyrast,“ segir í fundarboðinu.

Góðir gestir koma á fundinn og ræða stöðuna sem upp er komin. Talsmaður frá hópnum sem safnaði undirskriftum mætir á svæðið, auk Svandísar Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefur bæst við í hópinn og mun halda erindi á fundinum.

„Berum virðingu fyrir umhverfinu, íbúum Reykjanesbæjar og lýðræðinu. Mætum öll og látum í okkur heyra og kynnum okkur hvað er í gangi til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun í kosningunni sem er framundan,“ segir jafnframt í fundarboði sem er undirritað af Íbúum Reykjanesbæjar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024