Íbúðirnar á Ásbrú seldust upp á þremur dögum
- Mikil eftirspurn eftir húsnæði á Suðurnesjum
Allar íbúðirnar sem fasteignafélagið 235 Fasteignir setti á sölu á Ásbrú síðastliðinn sunnudag seldust upp á aðeins þremur dögum. Á annað hundrað manns mættu á opið hús þegar íbúðirnar átta voru settar í sölu, aðallega fjölskyldufólk af Suðurnesjum. Gera má ráð fyrir að fyrstu íbúarnir flytji inn um mánaðarmótin.
„Það voru aðallega fjölskyldur af Suðurnesjum sem keyptu íbúðirnar en við finnum einnig fyrir miklum áhuga frá fjölskyldufólki af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ingi Júlíusson, framkvæmdastjóri 235 Fasteigna. „Markmið okkar er að byggja hér upp fjölskylduvænt hverfi og okkur til mikillar gleði virðist það ætla að takast.”
Íbúðirnar átta eru fyrstu íbúðirnar sem 235 Fasteignir setur á sölu á gamla varnarliðssvæðinu. Íbúðirnar eru 89 – 95 fermetrar að stærð og var ásett verð þeirra frá 22 milljónum króna. Íbúðaverðið er töluvert lægra en gengur og gerist á Suðurnesjum sem og höfuðborgarsvæðinu. Gríðarleg uppbygging hefur verið á Ásbrú frá því að varnarliðið yfirgaf svæðið en nú búa þar um 2.700 manns.
Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á Suðurnesjum. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að íbúum á svæðinu eigi eftir að fjölga um 55% á næstu árum og að þeir verði tæplega 35 þúsund talsins árið 2030. Atvinnuppbygging á Suðurnesjum hefur verið í miklum blóma síðustu ár og þar starfa mörg af stærstu fyrirtækjum landsins.
235 Fasteignir áætla að setja um þrjátíu íbúðir, frá 90 – 132 fermetrum, í fjölbýlishúsahverfinu við Skógarbraut á Ásbrú í sölu um miðjan mánuðinn.
Hér má sjá video innslag og viðtal Sjónvarps Víkurfrétta við Inga inni í einni íbúðinni.