Íbúðin lögð undir kannabisræktun
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði kannabisræktun í íbúðarhúsnæði í umdæminu í fyrrakvöld. Farið var í húsleit á staðnum að fengnum dómsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness.
Þegar inn var komið lagði sterkan kannabisfnyk á móti lögreglumönnum, enda hafði íbúðin bókstaflega verið lögð undir ræktunina. Í henni lágu loftunarbarkar þvers og kruss, auk þess sem þrjú ræktunartjöld þöktu gólfin, tvö stór og eitt minna. Í þeim voru tugir kannabisplantna. Þá fundust tveir plastpokar með þurrkuðu kannabisefni.
Húsráðandi, karlmaður á þrítugsaldri, var ekki heima þegar húsleitin fór fram en haft var símasamband við hann og honum kynnt málið. Lögregla haldlagði plönturnar og búnaðinn, sem var æði umfangsmikill.