Fréttir

  • Íbúðarverð mun hækka enn meira á Suðurnesjum
  • Íbúðarverð mun hækka enn meira á Suðurnesjum
    Magnús Árni Skúlason hagfræðingur hjá Reykjavik Economics og Sighvatur Ingi útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ
Föstudagur 23. júní 2017 kl. 12:06

Íbúðarverð mun hækka enn meira á Suðurnesjum

Stór hópur að kaupa sína fyrstu fasteign. Vantar þúsund íbúðir

Frá fyrsta ársfjórðungi 2016 til fyrsta ársfjórðungs 2017 hækkaði kaupverð íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ um 50%. Verð á íbúðarhúsnæði er þó ennþá talsvert undir byggingakostnaði en það er þó misjafnt eftir hverfum. Sums staðar sé það komið í byggingarkostnað. Þá er íbúðarverð í Reykjanesbæ að nálgast íbúðarverð í suðurhluta Hafnarfjarðar. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Magnúsar Árna Skúlasonar á morgunfundi Íslandsbanka um fasteignamarkaðinn, í Hljómahöllinni í morgun.

Kaupverðið í Reykjanesbæ hækkaði úr 152 þús. í 228 þús. kr. milli fyrsta ársfjórðungs 2016 og 2017 og er komin mjög nálægt byggingarkostnaði húsnæðis sem með lóðarverði sé um 300 þús. kr. á Suðurnesjum. „Það er mikil og jákvæð sveifla á Suðurnesjum. Atvinnuleysi hefur aldrei verið minna og mikill fjöldi starfa hefur myndast í ferðaþjónustu og í tengslum við Keflavíkurflugvöll. Fasteignamarkaðurinn er að endurspegla þá jákvæðu þróun sem hefur orðið,“ sagði Magnús Árni.

Veltan á fasteignamarkaðnum á Suðurnesjum jókst um 65% á árinu 2016 og nam 29 milljörðum kr. Um 30% af kaupendum á fasteignum á Suðurnesjum eru þeir sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign. Flestir kaupsamningar í Reykjanesbæ voru á verðbilinu 15-30 milljónir eða 52%. Búast má við því að íbúðarverð muni hækka enn meira þar sem mun minna sé af húsnæði í byggingu en árið 2008. Um 1200 íbúðir komu inn á markaðinn eftir brotthvarf hersins en nú er staðan sú að mikil vöntun er á íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum. Magnús taldi að um þúsund íbúðir vantaði á svæðið til að anna eftirspurn. Íbúafjölgun í Reykjanesbæ frá maí 2016 til maí 2017 var um 7% eða um 1100 íbúar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024