Íbúðalánasjóður auglýsir 23 leiguíbúðir á Suðurnesjum
Von á 30 íbúðum til viðbótar á markað fyrir áramót
Íbúðalánasjóður auglýsir nú 23 íbúðir til leigu í Reykjanesbæ. Íbúðirnar eru í Keflavík og Njarðvík, allt frá 66 til 120 fermetrar að stærð, með tveimur, þremur eða fjórum herbergjum. Senda þarf umsókn á hverja eign í gegnum fasteignavefina fasteignir.is og mbl.is, undir leiga. Síðasti dagur umsókna er fimmtudagurinn 28. nóvember, en að því loknu verður dregið úr innsendum umsóknum, þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.
Þar segir einnig að þótt eignir séu skráðar íbúðarhæfar í skýrslum sjóðsins þýði það ekki að þær séu hæfar til útleigu. Að lokinni greiningu og mati fullnustuíbúðar er tekin ákvörðun um hvort kostnaður við standsetningu sé innan marka sjóðsins. Undanfarið hefur verið gert sérstakt átak í að hraða þessu ferli og setja aukinn kraft í standsetningu íbúða. Óhjákvæmilega tekur þó alltaf einhvern að gera fullnustuíbúð klára fyrir útleigu.
Á um það bil þriggja vikna fresti auglýsir Íbúðalánasjóður nokkurn fjölda leiguíbúða og stendur hver umsóknarlota í eina viku á meðan tekið er við umsóknum. Frá miðju ári 2012 hefur sjóðurinn þannig auglýst 116 eignir á Suðurnesjum til almennrar leigu. Með þessum 23 íbúðum fer fjöldinn í samtals 139 íbúðir á þessu svæði. Þá eru ekki taldar með þær tæplega 200 íbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur leigt gerðarþolum eða íbúum við uppboð. Vonir standa til að ríflega 30 íbúðir Suðurnesjum verði orðnar leiguhæfar í næstu umsóknarlotu sem auglýst verður fyrir áramót.
Upplýsingar og umsóknir
Leiguíbúðir Íbúðalánasjóðs eru auglýstar í umsóknarlotum sem standa í sjö daga. Að þeim tíma liðnum er dregið úr gildum, innsendum umsóknum sem uppfylla skilyrði. Allar upplýsingar og umsóknarform um íbúðirnar er að finna á fasteignir.is og mbl.is, undir leiga. Til þess að gæta jafnræðis er hvorki tekið við fyrirspurnum né umsóknum hjá sjóðnum sjálfum og því þurfa allir umsækjendur að fara í gegnum áðurnefnda fasteignavefi. Sækja þarf um hverja eign fyrir sig á netfang sem tilgreint er í auglýsingu hverju sinni. Mikilvægt er að gefa upp nafn, kennitölu og símanúmer umsækjanda, annars er umsóknin ekki tekin gild.