Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúarnir eru þolendur - ekki gerendur
Frá umræðunni á alþingi í gær. Skjáskot af vefsíðu Alþingis.
Fimmtudagur 19. febrúar 2015 kl. 14:54

Íbúarnir eru þolendur - ekki gerendur

Umræður um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar á Alþingi.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var flutningsmaður umræðu um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar á alþingi í gær. Þar sagði hún að fjárhagsstaðan kallaði á margar erfiðar ákvarðanir sem varða íbúa bæjarins og starfsmenn hans. Gert sé ráð fyrir tekjuaukningu í formi hærra útsvars og fasteignagjalda, minni fjárfestingum og að B-hluta starfsemin skili hámarksarði.

Þá kom Oddný inn á athuganir sýni að mörg börn á Suðurnesjum búi við fátækt og hlutfallslega fleiri en á landinu í heild. Raunhæft sé að gera ráð fyrir að bág fjárhagsstaða Reykjanesbæjar þar sem búa um 14.500 íbúar bitni á þjónustu við börn. Harðast komi slíkt niður á þeim heimilum þar sem ráðstöfunartekjur eru lágar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líta eigi til verkefna í tengslum við afslátt á fasteignaskatti

„Fyrir stuttu svaraði innanríkisráðherra munnlegri fyrirspurn minni um ríkisstyrk til framkvæmda við Helguvíkurhöfn. Aðkoma ríkisins að því verkefni næmi um 180 millj. kr. og væri styrkur í verki. Annað sem mér finnst mikilvægt að taka til athugunar er að ríkið á miklar eignir á Ásbrú þar sem herinn var áður og hefur afslátt af fasteignaskatti því að af þeim eignum sem standa tómar greiðir ríkið ekki fasteignaskatt og nemur afslátturinn um 90 millj. kr. á ári, sem Reykjanesbær veitir ríkinu,“ sagði Oddný og spurði í framhaldi af því innanríkisráðherra hvort hún telji ekki að það þurfi að líta til svona verkefna til að styrkja stöðu Reykjanesbæjar og þá um leið svæðisins á Suðurnesjum.

Horfa þarf miklu víðar en til innanríkisráðuneytis

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra svaraði því til að það mætti að Reykjanesbær hafi fjárfest í von um að tækifærin yrðu stór og það sé að hluta til sá vandi sem sveitarfélagið búi við núna. Þau verkefni hafi alls ekki skilað þeim árangri sem menn væntu og því hafi fjárfestingar orðið mjög þungur baggi á sveitarfélaginu. „[...]Til að taka á vanda Reykjanesbæjar þarf svo miklu meira að koma til en að líta í mitt ráðuneyti. Við þurfum að horfa miklu víðar.“

Íbúarnir eru þolendur - ekki gerendur

Páll Valur Björnsson, þingmaður vinstri grænna kom inn í umræðuna og sagði m.a.: „En við verðum líka að muna að íbúar í Reykjanesbæ eru ekki gerendur í málinu heldur fyrst og fremst þolendur. Þeir líða mest fyrir vondar ákvarðanir sem stjórnmálamenn tóku sem þeir treystu og að eftirlitskerfi með því virkaði ekki sem skyldi.“

Aukin samábyrgð sveitarfélaga möguleiki

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður vinstri grænna, taldi að við aðstæður sem Reykjanesbær glímir við eigi stjórnvöld að gera allt sem þau geta til að styðja við bakið á svæði sem á í slíkum erfiðleikum og sérstaklega þegar menn sýna sjálfir að þeir eru að takast á við erfiðleikana og færa fórnir í þess þágu. [...] Þegar sveitarfélög lenda í erfiðleikum af þessu tagi þá eiga önnur sveitarfélög í landinu líka að koma að því borði að hjálpa til. Það á líka að vera samábyrgð meðal sveitarfélaganna í landinu og þau geta í gegnum samtök sín og sjóði lagt sitt af mörkum, t.d. með hagstæðum lánveitingum og góðum kjörum á lánum úr Lánasjóði sveitarfélaga.

Of seint í rassinn gripið

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að í tilfelli Reykjanesbæjar er allt of seint í rassinn gripið. „Látum það ekki henda önnur sveitarfélög. Í mínum huga felst lausnin í því að styrkja eftirlitið með rekstri sveitarfélaga enn frekar og upplýsingagjöfina til íbúa.“

Athugasemdir eftirlitsnefndar skiluðu sér ekki til íbúanna

Oddný svarði orðum Silju Daggar og sagði að fólk treysti á eftirlit eftirlitsnefndar sveitarfélaga og þegar hún setji upp sín rauðu flögg verði gripið til viðeigandi aðgerða áður en allt fer í bál og brand. „En það virðist hafa brugðist hvað Reykjanesbæ varðar, athugasemdir eftirlitsnefndarinnar virðast ekki hafa náð alla leið til íbúanna.“