Íbúar við Klapparstíg fá botnlanga

Íbúar við Klapparstíg í Keflavík óskuðu eftir því við umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar að gatan þeirra yrði að botnlanga. Það hefur nú verið samþykkt til reynslu.
 
Klapparstígur liggur frá Hafnargötu, yfir Túngötu og að Vallargötu. Ekið er inn í götuna frá Túngötu og hluti hennar, milli Túngötu og Vallargötu, er einstefnugata.
 
Með tilkomu Bónus við Túngötu hefur umferð um götuna aukist en hús standa mjög nærri götu og einstefna er á stundum ekki virt.
 
Skipulagsyfirvöld samþykktu að senda erindi íbúanna í grenndarkynningu. Engar athugasemdir bárust og þá gáfu lögregla og slökkvilið jákvæða umsögn.