Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Íbúar til áhrifa á nýjum vef
Laugardagur 11. janúar 2014 kl. 14:28

Íbúar til áhrifa á nýjum vef

- Reykjanesbær hefur opnað tvo nýja íbúavefi

Íbúar Reykjanesbæjar hafa nú aukna möguleika á að hafa áhrif á málefni og rekstur bæjarfélagsins bæði með nýjum íbúavef, þar sem leggja má inn hugmyndir og ábendingavef þar sem benda má á umbætur í hverfum. Árni Sigfússon bæjarstjóri segir íbúa hafa verið duglega að leggja fram hugmyndir á árlegum íbúafundum og oft og tíðum hafi þær hugmyndir ratað inn í stjórnsýsluna, t.d. framtíðarsýn. „Með íbúavefnum skapast vettvangur til að leggja inn hugmyndir og móta í félagi við aðra íbúa. Vinsælar og vel unnar hugmyndir eiga möguleika á að komast í framkvæmd,“ sagði Árni.

Innlögn hugmynda
Á vefnum „Íbúavefur – íbúar til áhrifa“ gefst íbúum kostur á að leggja fram hugmyndir um öll mál tengd samfélaginu, fá um þau umræðu á meðal íbúa og koma til framkvæmdar fái hugmyndin sterkan hljómgrunn á meðal íbúa. Lögð er áhersla á að vefurinn er ekki beintengdur stjórnsýslu bæjarins, heldur er ætlast til að hver einstaklingur leggi fram hugmynd og fái um hana umræðu á meðal íbúa sem geta gefið henni nokkurs konar einkunn. Umsjónarmaður vefjar sér þá um að koma ábendingum til bæjarins, bæjarstjóra, nefnda og ráða, ef hugmyndin hefur fengið sterkan hljómgrunn og samstöðu á meðal bæjarbúa sjálfra. „Þetta er einfalt. Þú skáir þig inn á íbúavefinn, getur á einfaldan hátt samþykkt eða hafnað hugmynd sem hefur verið lögð fram, eða þú getur komið með nýja hugmynd og leitað álits íbúa á henni,“ sagði Árni.  Slóðin er rnb.ibuavefur.is.

Að sögn Árna tekur íbúavefurinn mið af þeim tilraunum sem hafa verið gerðar á þessu sviði í íslensku samfélagi um aukið íbúalýðræði, t.d. hjá stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík og hjá einu af þeim minni, Rangárþingi Eystra. „Við höfum dregið fram kosti þessara vefja og reynt að afnema ókostina sem komið hafa fram. Fyrirtækið Hugveitan hefur unnið gerð vefjarins, undir yfirstjórn Guðmundar Sæmundssonar, en hann hefur unnið lengi að þróun sambærilegs verkefnis fyrir Rangárþing Eystra og stundað rannsóknir og nám á þessu sviði. Umsjónarmaður vefjarins er Svanhildur Eiríksdóttir stjórnsýslufræðingur, en hún vann meistararitgerð sína í opinberri stjórnsýslu um úttekt á íbúavef Reykjavíkurborgar, Betri Reykjavík,“ sagði Árni.

Kippa í lag!
Samhliða útgáfu nýja íbúavefjarins hefur nýr vefur verið settur í loftið, sem er ábendingavefur um umbætur í umhverfismálum, hluti sem íbúi óskar eftir að sé „kippt í lag“ í sínu nánasta umhverfi. „Sá sem ritar ábendingu um umhverfisbætur, getur merkt inn staðsetningu verkefnisins á kort en skilaboðin berast beint til umhverfis- og skipulagssviðs, sem tekur við henni og vinnur úr,“ sagði Árni. Slóð ábendingavefjarins er map.is/dvergur/clients/ath_rnb.

Margar leiðir til Reykjanesbæjar
Að sögn Árna geta íbúar nú nálgast bæinn í gegnum fjórar vefsíður sem eru samtengdar bænum á mismunandi hátt, auk annarra leiða, s.s. í viðtalstímum, tölvupósti og á íbúafundum „Auk nýja íbúa-vefjarins og ábendingavefjarins getur íbúi farið á „Mitt Reykjanes“ þar sem haldið er utan um læstar upplýsingar íbúans um fasteignagjöld, umönnunargreiðslur o.fl. og íbúi getur sent formleg erindi til stjórnsýslunnar. Fjórði vefurinn er upplýsingavefurinn, þ.e. heimasíða Reykjanesbæjar. Vefirnir fjórir eru tengdir saman með samskonar vegvísi, sem einfaldar íbúum notkun vefjanna. Sjón er sögu ríkari,“ sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri að lokum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024