Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúar sameinaðs sveitarfélags yrðu 17.000
Fimmtudagur 7. október 2004 kl. 15:10

Íbúar sameinaðs sveitarfélags yrðu 17.000

Sveitarfélögum á Suðurnesjum mun fækka úr fimm í eitt ef tillögur sameiningarnefndar verða samþykktar. Félagsmálaráðherra kynnti tillögur nefndarinnar fyrir stuttu. Ef tillögurnar ná fram að ganga verða íbúar hins nýja sveitarfélags um 17 þúsund talsins. Nefndin leggur til að þann 23. apríl á næsta ári verði kosið um tillögur að sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Í rökstuðningi með tillögu sameiningarnefndarinnar segir að sameinað sveitarfélag á Suðurnesjum verði í hópi stærstu sveitarfélaga landsins. Með sameiningu verði það nægilega öflugt til að taka að sér öll þau verkefni sem eru til umræðu að flytja frá ríki til sveitarfélaga svo sem málefni fatlaðra og heilbrigðis- og öldrunarmál.

Ályktanir frá sveitarfélögum

Öll sveitarfélög sendu nefndinni ályktanir sínar en ekki barst greinargerð frá Sambandi Sveitarfélaga á Suðurnesjum. Bæjarstjórnir Grindavíkurbæjar, Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs telja núverandi skipan sveitarfélaga á svæðinu vera með ágætum og telja ekki nauðsynlegt að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna. Sveitarstjórn Vatnsleysustrandarhrepps telur að skoða beri málið með opnum hug. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur í sama streng og telur eflingu sveitarstjórnarstigsins á Suðurnesjum vera svæðinu til framdráttar.

Skiptar skoðanir ´93

Árið 1993 voru skiptar skoðanir um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum en þá var kosið um sameiningu sveitarfélaganna í eitt. Tillagan var felld í öllum sveitarfélögum nema í Keflavíkurbæ, Njarðvíkurbæ og Hafnarhreppi sem í kjölfarið sameinuðust í sveitarfélagið Reykjanesbæ.

Margvíslegir hagræðingarmöguleikar

Í rökstuðningi með tillögum nefndarinnar segir að með sameiningu sveitarfélaganna í eitt skapist meiri möguleikar til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Nálægðin við alþjóðaflugvöll og höfuðborgarsvæðið bjóði upp á mikla möguleika í ferðaþjónustu og annarri atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Að mati nefndarinnar myndu margvíslegir hagræðingarmöguleikar skapast enda sé stutt á milli kjarna sveitarfélaganna. Suðurnesin séu heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði þar sem Reykjanesbær er helsti þjónustukjarni svæðisins. Fram kemur í rökstuðningi nefndarinnar að atvinnusókn íbúa milli sveitarfélaga á svæðinu sé umtalsverð, auk þess  sem ungmenni af öllum Suðurnesjum sæki nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ. 

Samvinna sveitarfélaganna umtalsverð nú þegar

Í rökstuðningi nefndarinnar kemur fram að samvinna sveitarfélaganna á svæðinu sé umtalsverð hvað varðar heilbrigðiseftirlit, atvinnumál, sorphirðu og förgun. Auk þessu séu sveitarfélögin aðilar að Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöð Símenntunar og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Enn fremur vinni öll sveitarfélögin sameiginlega á sviði fræðslu- og barnaverndarmála, að Grindavíkurbæ fráskildum. Fram kemur að Reykjanesbær og Grindavíkurbær séu í dag nægilega öflug sveitarfélög til að sinna öllum helstu lögbundnu verkefnum sveitarfélaga. Hinsvegar nái Sandgerðisbær, Garður og Vatnsleysustrandarhreppur ekki lágmarksíbúafjölda til starfsrækslu barnaverndarnefndar og hafi því leyst þau mál í samvinnu við önnur sveitarfélög.

Tveggja mánaða viðræður framundan

Gert er ráð fyrir sveitarfélög á svæðinu hefji tveggja mánaða viðræður um tillögur nefndarinnar þar sem lögð verður áhersla á að komist verði að sameiginlegri niðurstöðu. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að kosið verði um þær tillögur sem úr því koma. 

Hjálmar Árna formaður

Í desembermánuði 2003 skipaði félagsmálaráðherra nefnd sem gera á tillögur um sameiningu sveitarfélaga. Starf nefndarinnar er hluti af stærra verkefni um eflingu sveitarstjórnarstigsins og starfar hún undir yfirumsjón verkefnisstjórnar, sem einnig er skipuð af ráðherra. Í verkefnisstjórn sitja Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Hjálmar Árnason, sem er formaður. 

Víkurfréttir sendu bæjar- og sveitarstjórum á Suðurnesjum spurningar varðandi sameiningarmál með tölvupósti og hér á eftir fara svör þeirra.

Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Hvernig líst þér á tillögu sameininganefndar um að Suðurnes verði eitt  sveitarfélag?

Til lengri tíma er það skynsamlegt!

Hverja telurðu vera kostina?

1. Eitt atvinnusvæði, sem samstaða er um að skipuleggja 2. Eitt útgjaldasvæði til uppbyggingar íbúabyggðar og þjónustu sem er nógu sterkt til að keppa við það besta sem býðst annars staðar. 3. Samræmd þjónusta almenningsvagna 4. Sömu gæðakröfur sem nútímafólk gerir um aðbúnað í næsta nágrenni, malbikaðar götur, gangstéttir, garðar, góðir skólar og fjölþætt þjónusta í þágu allra. 5. Lægri yfirstjórnarkostnaður 6. Sterkari eining í samningum við ríki?

Hverja telurðu vera gallana?

Það gæti verið að Grindavík sé of fjarri landfræðilega til að kostir sameiningar nái nógu vel  í gegn. Í raun er Reykjanesbær orðinn nógu stór eining til að geta nýtt sér kosti stærðarinnar og því óttast ég að margir íbúar hér horfi ekki nógu langt fram í tímann til að sjá kostina af sameiningu fyrir allt svæðið. 

Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri í Sandgerði

Hvernig líst þér á tillögu sameininganefndar um að Suðurnes verði eitt sveitarfélag?

Þar sem við höfum ekki fengið tillögur nefndarinnar til skoðunar eða afgreiðslu þ.e. útfærslur eins og verkefnatilfærslur og fjármagn frá ríki til sveitarfélaga þá er erfitt að fjalla á vitrænan hátt um málið. Bæjarstjórn tók hinsvegar málið til umræðu og hafnaði sameiningu fyrir nokkru, en gera má ráð fyrir því að  önnur umræða fari nú fram í sveitarstjórnum á svæðinu þar sem  komin er sérstök tillaga í þá veru að sameina öll sveitarfélögin á Suðurnesjum í eitt.

Hverja telurðu vera kostina? Hverja telurðu vera gallana?

Þessum spurningum er ekki hægt að svara þar sem kostir og gallar hafa ekki verið kannaðir.

Hvernig heldurðu að undirtektir bæjarbúa verði í þínu sveitarfélagi?

Undirtektir - umræður verða góðar, eru rétt að hefjast.

Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri í Grindavík

Hvernig líst þér á tillögu sameininganefndar um að Suðurnes verði eitt sveitarfélag?

Bæjarstjórn Grindavíkur tók fyrir erindi nefndar um  sameiningu sveitarfélaga á fundi sínum miðvikudaginn 14. apríl og bókaði eftirfarandi: Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkir samhljóða að ekki sé ástæða til að íhuga sameiningu við önnur sveitarfélög á Reykjanesi.

Hverja telurðu vera kostina?

Tel að ekki hafi verið sýnt fram á kosti við sameiningu gagnvart Grindavík.

Hverja telurðu vera gallana?

Við teljum ókostina við sameiningu vera aukinn kostnaður við stjórnsýsluna, fjarlægð stjórnenda frá íbúum, fjarlægð stofnanna frá íbúum, hættu á minni þjónustu í sveitarfélaginu og flutningur starfa. Tapað forræði yfir ákvörðunum um notkun skattfjár í sveitarfélaginu. Auk þess mismunandi skuldastaða sveitarfélaganna.

Hvernig heldurðu að undirtektir bæjarbúa verði í þínu sveitarfélagi?

Mjög neikvæð. 

Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd

Umræða um sameiningatillöguna hefur ekki farið fram í hreppsnefnd. Framundan er borgarafundur í Vogum þar sem íbúum verður gefinn kostur á að ræða sameiningamál.  Á þessum forsendum tel ég ekki tímabært að tjá mig frekar um tillöguna. 

Sigurður Jónsson bæjarstjóri í Garði

Hvernig líst þér á tillögu sameiningarnefndar um að Suðurnes verði eitt sveitarfélag?

Mér líst ekki vel á tillögur sameininganefndar um að Suðurnes verði eitt sveitarfélag. Ég er mjög undrandi á að þetta skuli vera tillaga sameiningarnefndar miðað við þau skilaboð sem nefndin fékk frá okkur hér á Suðurnesjum og trúi ekki að þetta verði endanlega tillagan. Þrjár sveitarstjórnir af fimm gáfu þá umsögn varðandi sameiningu að ekki væri ástæða til frekari sameiningar á svæðinu. Stjórn SSS var beðin að koma með tillögu um sameiningu á svæðinu. Niðurstaða stjórnar SSS var sú að ekki væri ástæða til að leggja fram tillögu um sameiningu.

Hverja telurðu vera kostina?

Eins og staðan er núna get ég ekki komið auga á kosti sameiningar fyrir svæðið.Ég tel að það hafi á engan hátt verið rétt staðið að undirbúningi að frekari sameiningu sveitarfélaga. Að mínu viti hefði fyrst átt að setjast niður og ræða núverandi tekju- og verkaskiptingu sveitarfélaga og ríkis. Það er viðurkennt að sífellt hefur verið bætt á sveitarfélögin verkefnum án þess að tekjur kæmu á móti. Fyrsta skrefið er að leiðrétta þetta. Annað skrefið væri að ræða um flutning verkefna til sveitarfélaga og gengið væri fast og ákveðið frá því hvaða fjármunir fylgdu með. Næðist samkomulag milli sveitarfélaga og ríkis í þeim efnum væri komið að þriðja atriðinu að ræða sameiningu sveitarfélaga.

Hverja telurðu vera gallana? 

Ef ég tek mitt sveitarfélag Garðinn sem dæmi þá hafa menn haft gífurlegan metnað til að byggja upp öflugt sveitarfélag á síðustu árum sem hefur skilað sér í fjölgun íbúa,fallegra umhverfi og betri þjónustu. Ég veit að þetta sama viðhorf er  í öðrum sveitarfélögum. Ég fullyrði að þessa jákvæða þróun hefði ekki átt sér stað værum við hluti af Reykjanesbæ. Þar sem sveitarfélög hafa verið sameinuð hefur ekki náðst fram sparnaður. Reykjanesbær er gott dæmi um það.Það er mín skoðun að þetta fyrirkomulag að hafa 5 sveitarfélög hafi skilað svæðinu mjög góðum árangri og því sé ekki ástæða að breyta frá því. Það eru mun meiri líkur fyrir áframhaldandi uppbygginu ef metnaður 5 sveitarstjórna verður áfram ríkjandi á svæðinu heldur en ein sveitarstjórn.

Hvernig heldurðu að undirtektir bæjarbúa verði í þínu sveitarfélagi?

Hvað varðar undirtektir bæjarbúa verði niðurstaðan sú að kjósa um tillögu um sameiningu í eitt sveitarfélag verða auðvitað skiptar skoðanir,þó tilfinning mín sé að mikill meirihluti vilji óbreytt ástand. Ég heyri fólk hér í Garði ekki tala þannig að það sé spennt fyrir sameiningu sveitarfélaganna í eitt sveitarfélag og verða þannig hverfi í Reykjanesbæ. Íbúar eru mjög jákvæðir fyrir þeirri miklu uppbyggingu sem bæjarfulltrúar hafa beitt sér fyrir á síðustu árum og vilja að sú þróun haldi áfram.

VF-myndir/ úr safni: Mynd nr 1, Oddgeir Karlsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024