Íbúar Reykjanesbæjar vilja grænan iðnað
87 einstaklingar í Facebook hópnum „Reykjanesbær, gerum góðan bæ betri“ segjast vilja grænan iðnað eða gróðurhús í bæinn, aðspurðir hvaða áherslur í atvinnuuppbyggingu þeir vilji sjá í bæjarfélaginu. Þá segjast 67 einstaklingar vilja meira að gera fyrir ferðamenn á svæðinu, 48 manns vildu uppbyggingu í þekkingariðnaði og 28 vildu sjá meira um fiskveiðar á svæðinu.
Þórólfur Júlían Dagsson, stjórnarmaður Pírata á Suðurnesjum, varpaði þessari spurningu fram fyrir forvitnis sakir en síðan „Reykjanesbær, gerum góðan bæ betri“ var stofnuð með það að markmiði að bæjarbúar geti bent á það sem miður fer í bæjarfélaginu og er ábótavant. Bæjarbúar hafa þó talað um það á síðunni að reyna að hafa umræðuna uppbyggilega og að mikilvægt sé að benda einnig á það sem vel er gert.