Íbúar Reykjanesbæjar orðnir 12.000 talsins
Íbúar Reykjanesbæjar urðu 12000 talsins í gær þegar hjónunum Óla Þór Magnússyni og Önnu Sigríði Jóhannesdóttur fæddust myndarlegar tvíburadætur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Af því tilefni færði Árni Sigfússon bæjarstjóri íbúum nr. 11999 og 12000 gjafabréf til greiðslu skólagjalda á 1. ári til náms í alþjóðlegum háskóla sem starfræktur verður við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.
Í dag verður einmitt undirrituð viljayfirlýsing milli Reykjanesbæjar, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Háskóla Íslands í samstarfi við fjölda fyrirtækja um stofnun félags til háskólareksturs á Keflavíkurflugvelli. Svo skemmtilega vill jafnframt til að undirritun þessi ber upp á sama dag og Bandaríkin tilkynntu um brotthvarf hersins 15. mars 2006.
Það er því bjart framundan í Reykjanesbæ og vonandi að stúlkurnar tvær nýti sér þá aukna möguleika til náms sem nú bjóðast í Reykjanesbæ. Óli Þór og Anna Sigríður eiga fyrir þrjá drengi og eru þau nýflutt til Reykjanesbæjar en þá ákvörðun tóku þau eftir að ljóst var að von var á tvíburum í heiminn.
Af vefsíðu Reykjanesbæjar