Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Íbúar Reykjanesbæjar hvattir til að senda inn tillögur að aðalskipulagi
  • Íbúar Reykjanesbæjar hvattir til að senda inn tillögur að aðalskipulagi
    Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar.
Mánudagur 2. nóvember 2015 kl. 12:15

Íbúar Reykjanesbæjar hvattir til að senda inn tillögur að aðalskipulagi

Bæjarbúum gefst nú kostur á að segja skoðanir sínar og leggja til hugmyndir fyrir endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar sem stýrihópur vinnur að. Íbúaþing var haldið í Stapa 19. september síðastliðinn og barst þá fjöldi hugmynda. Að sögn Guðlaugs Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar, var á fundinum mikið rætt um bættar hjóla- og göngustígaleiðir, þéttingu byggðar, tjaldsvæði, auk þess sem Helguvík bar oft á góma. Fundargestum var skipt í fimm hópa og fjallaði hver um eitt málefni; atvinnumál, byggðaþróun, náttúru og umhverfi, þjónustu og menningu. „Ábendingarnar voru fjölmargar, allt frá fríu WiFi í Reykjanesbæ upp í hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga,“ segir hann.

Nú er unnið með þær hugmyndir sem komu fram á fundinum í september og verður annar fundur haldinn fljótlega eftir áramót. Fram að því gefst íbúum kostur á að bæta í sarpinn. Guðlaugur segir að í stuttu máli sé aðalskipulag skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. „Þar birtist stefna bæjaryfirvalda um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál, þróun byggðar og byggðamynstur til að minnsta kosti 12 ára. Aðalskipulag er svo forsenda fyrir gerð deiliskipulags.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðlaugur segir fjölmargar forsendur liggja fyrir um það hvort endurskoða þurfi aðalskipulagið. „Eitt er að unnið hefur verið svæðisskipulag fyrir Suðurnesin og taka þarf tillit til hvort það hafi áhrif á aðalskipulagið. En það sem hefur líklega mest áhrif á þörf til að endurskoða skipulagið er íbúaþróun og íbúafjölgun en gert var ráð fyrir mjög örri þróun og íbúafjölgun var spáð um 3,5 prósent. Núverandi spár gera ráð fyrir um 1 prósent fjölgun og þetta hefur mikil áhrif á hraða uppbyggingarinnar. Til dæmis eru mörg atvinnusvæði sem átti að breyta í íbúasvæði en á því er ekki þörf eins fljótt er og gert var ráð fyrir í gildandi skipulagi." 

Guðlaugur hvetur sem flesta til að koma með ábendingar því þær nýtast vel í þeirri vinnu sem framundan er. Hugmyndir má senda inn hér á vef Reykjanesbæjar.