Íbúar Reykjanesbæjar almennt ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins
Reykjanesbær kemur vel út í nýrri þjónustukönnun Gallup og hækkar um 0,2 stig í sjö þjónustuþáttum og 0,3 stig í einum af samtals tólf sem kannaðir voru. Markmið könnunarinnar var að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum.
Þeir þjónustuþættir sem eru kannaðir eru; ánægja með sveitarfélagið sem stað til að búa á, þjónusta grunnskóla sveitarfélagsins, þjónusta við barnafjölskyldur, eldri borgara og fatlaða, gæði umhverfisins í nágrenninu og ánægja með þjónustu sveitarfélagsins í heild.
Almenn ánægja með skipulagsmál í sveitarfélaginu hækkar um 0,3 stig og er munurinn tölfræðilega marktækur þar, ásamt hækkun á þjónustu grunnskóla og þjónustu sveitarfélagsins í heild.
Þjónusta Reykjanesbæjar er yfir meðaltali sveitarfélaga í átta flokkum af tólf, á pari við meðaltal í þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið og undir landsmeðaltali í sorphirðu, gæðum umhverfis og ánægju með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Í tveimur af þessum þremur flokkum hefur sveitarfélagið bætt sig frá því í fyrra en alltaf er tækifæri til að gera enn betur.
Íbúar eru ánægðastir með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bæjarfélaginu, sem fær 4,2 stig af fimm mögulegum, en ánægjan er minnst í skipulagsmálum, 3,3 stig.
Könnunin var framkvæmd af Gallup á tímabilinu 3. nóvember til 17. desember 2017. Um síma- og netkönnun var að ræða og bárust alls 299 svör.
Hér má skoða könnunina nánar.