Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúar jákvæðir fyrir hitaveitu
Laugardagur 15. september 2012 kl. 08:04

Íbúar jákvæðir fyrir hitaveitu

Sveitarfélagið Vogar sendi fyrr í sumar öllum fasteignaeigendum á Vatnsleysuströnd, austan Nesbús, bréf og innti þá eftir afstöðu til þess að fá hitaveitu.

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum segir í samtali við Víkurfréttir að í bréfinu hafi verið bent á hver áætlaður kostnaður væri við að taka inn vatnið samkvæmt gjaldskrá HS Veitna og á þá staðreynd að þar að auki gætu sumir húseigendur lent í kostnaði við að gera viðeigandi breytingar til að geta nýtt heitt vatn til húshitunar. Jafnframt var skýrt tekið fram í bréfinu að afstaða húseigenda til málsins væri á engan hátt skuldbindandi, einungis væri verið að leita eftir viðhorfi til málsins. Ásgeir segir að svör hafi borist frá allmörgum húseigendum á svæðinu, þau eru undantekningalaust jákvæð.

Tilraunaboranir eftir heitu vatni verða einnig gerðar á Keilisnesi eru þær eru á höndum fyrirtækisins Íslenskrar matorku, sem alfarið kostar þær rannsóknir. Bæjarráð Voga hefur ákveðið að bíða með ákvarðanir um hitaveitu á Vatnsleysuströnd þar til niðurstöður úr þessum tilraunaborunum liggja fyrir.

Á Auðnum á Vatnsleysuströnd var borað eftir heitu vatni og leit út fyrir góðan árangur. Borað var niður á ca. 800 metra dýpi og var vatnið orðið um 80°C. Ekki vildi betur til en svo að borinn brotnaði í holunni og hún því ekki að fullu nýtanleg. Staðan er sú að þar fæst nú vatn sem er 56°C, en Ásgeir, bæjarstjóri í Vogum, sagðist í samtali við Víkurfréttir ekki hafa upplýsingar um í hvaða magni það er eða hvort það dugi til að hita upp hús á Ströndinni. Samkvæmt upplýsingum frá eiganda holunnar kemur talsvert mikið magn af vatni úr henni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024