Íbúar í Höfnum hræddir um eigin heilsu eftir sprengingu í efnaverksmiðju
Íbúar í Höfnum í Reykjanesbæ þustu margir hverjir út úr húsum sínum í kvöld þegar mikil sprenging heyrðist í þorpinu. Reykjarbólstur sást stíga til himins frá efnaverksmiðju sem stendur við höfnina í Höfnum og þykkan reyk lagði yfir byggðina.
Íbúi sem Víkurfréttir ræddu við, og vill ekki láta nafns síns getið, sagði að margir í þorpinu hafi kvartað yfir höfuðverk eftir að reykskýið fór yfir. Hann var jafnframt ósáttur við að lögregla á vettvangi veitti litlar upplýsingar um hvað væri að brenna. Hann sagðist ekkert vita hvort efnin væru hættuleg heilsu fólks eða ekki. Hann sagði að íbúar í Höfnum hefðu áhyggjur af heilsu sinni vegna atviksins í kvöld.
Íbúinn sagði að t.a.m. hafi einangrunarstöð fyrir gæludýr, sem sé í næsta húsi við húsnæði Efnaeimingar ehf. alveg horfið í reyk á fyrstu mínútunum og skýið sem fór yfir þorpið hafi verið þykkt. Hann hafi strax farið að húsnæði fyrirtækisins til að athuga hvort slys hefðu orðið á fólki. Þá hafi maður staðið þar fyrir utan og verið að tala í síma og enginn hafi slasast í sprengingunni.
UPPFÆRT
Samkvæmt frétt á mbl.is var starfsmaður fyrirtækisins að eima etanol úr prentlitum. Úrgangur af litnum var settur í tunnu sem átti að fara til eyðingar. Tunnan var sett út þar sem henni var ætlað að kólna. Vegna mistaka var lok sett á tunnuna sem olli því að efnahvörf urðu í henni og lokið sprakk af. Við það myndaðist mikill reykur.
VF-mynd / Sölvi Logason - Frá vettvangi í kvöld.