Íbúar harmi slegnir
Það er óhætt að segja að íbúar í Reykjanesbæ séu harmi lostnir í kjölfar þessa hörmulega atburðar þegar tuttugu og eins árs gamall Keflvíkingur myrti 19 ára gamla stúlku á heimili hennar í Keflavík.Þetta er eitt hrottalegast morðmál á Suðurnesjum sem komið hefur upp. Pilturinn játaði verknaðinn og hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15.júní.Pilturinn ruddist inn í íbúðina og réðst á stúlkuna sem lá sofandi í rúmi sínu. Sambýlismaður hennar var einnig sofandi annars staðar í íbúðinni og vaknaði við átökin. Árásarmaðurinn veittist einnig að honum og særði hann og lagði svo á flótta. Annar ungur maður sem er vitni í málinu er ekki talinn eiga neinn hlut að þessu voðaverki. Unga parið var nýflutt í íbúðina. Orðrómur um að gleðskapur hafi verið í íbúðinni er ekki réttur. Þau höfðu skroppið í stutta stund fyrr um kvöldið á skemmtistað en fóru heim um klukkan tvö.Lögreglan fann í gær morðvopnið sem er stór dúkahnífur en pilturinn henti honum í nágrenni hússins þegar hann lagði á flótta eftir árásina. Hann mun hafa lagt leið sína í fjölbýlishús í Keflavík en fór síðan á sjúkrahús til að láta gera að eigin sárum.Banamaður stúlkunnar hafði að undanförnu ítrekað hótað stúlkunni og vinkonum hennar á gróflegan hátt, meðal annars með sms skilaboðum. Það hafði hann gert í hefndarhug þar sem stúlkurnar höfðu vitnað gegn honum eftir að hann hafði nauðgað einni stúlkunni. Lögreglan í Keflavík hafði vitneskju um hótanirnar en Þórir Maronsson, yfirlögregluþjónn segir kerfið þannig að erfitt sé að setja menn í varðhald fyrir slíkt.Stúlkan sem lést hét Áslaug Óladóttir og var til heimilis að Skólavegi 2 íKeflavík. Hún var 19 ára og lætur eftir sig sambýlismann.