Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúar á svæðinu njóti sömu fjárframlaga
Fimmtudagur 21. desember 2017 kl. 11:06

Íbúar á svæðinu njóti sömu fjárframlaga

-Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að auka fjárframlög til svæðisins sem eru lægri en á öðrum landshlutum

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að auka fjárframlög til opinberra stofnanna á Suðurnesjum svo íbúar á svæðinu njóti sömu fjárframlaga og íbúar í öðrum landshlutum, er fram kemur í bókun frá bæjarstjórninni.

Samhliða fordæmalausri íbúafjölgun í Reykjanesbæ, sem hefur verið langt umfram fjölgun íbúa á landinu öllu, hafa fjárframlög ríkisins til svæðisins ekki verið aukin í takt við hana með þeim afleiðingum að fjárframlög á hvern íbúa hafa dregist verulega saman. Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki verið tekið eðlilegt tillit til þess hversu langt yfir meðaltal fjölgunin á svæðinu er og því stendur svæðið langt að baki öðrum svæðum þegar kemur að fjárframlögum til opinberrar þjónustu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi lágu fjárframlög voru enn á ný staðfest í úttekt sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar lét vinna fyrir sig á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 sem lagt var fram í september. Skoðun á fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar bendir ekki til þess að miklar breytingar hafi verið gerðar á fjárframlögum til þeirra mála sem tengjast Suðurnesjum.

Fjölgun íbúa og minna atvinnuleysi, vegna mikilla umsvifa á svæðinu, skilar meiri tekjum til svæðisins en kallar einnig á auknar fjárveitingar sveitarfélagsins svo hægt sé að takast á við þann mikla uppgang og fordæmalausu fjölgun af ábyrgð. Vöxtur í flugsamgöngum kallar einnig á aukna þörf á landamæravörslu og löggæslu. Þá hefur fjölgun íbúa og ferðamanna í för með sér aukið álag á heilsugæsluna á svæðinu, kallar á mikla uppbyggingu í samgöngum, fjölgun grunnskólanemenda hefur í för með sér aukið álag á skólakerfið og svo mætti áfram telja. Á sama tíma og sveitarfélagið hefur staðið frammi fyrir þessum miklu áskorunum hafa framlög ríkisins samt almennt verið lægri en til sambærilegra verkefna í öðrum landshlutum. Í bókuninni segir að ljóst sé að hið opinbera verði að styðja við þennan uppgang ef ekki eigi að stefna í óefni.