Íbúafundurinn: Kostnaður við kísilverksmiðjuna er kominn í 20 milljarða kr.
-Nýtt félag Arion banka, Stakksberg, kynnti 4,5 milljarða uppbyggingu og lagfæringar. Lofar að greiða 180 millj. kr. skuld United Silikon við Reykjanesbæ
Kostnaður við byggingu kísilverksmiðju United Silicon er kominn í um 20 milljarða króna og því hafi ekki komið til greina að rífa hana niður. Það hefði verið óforsvaranlegt og þannig hefðu miklir fjármunir sem hefðu farið í uppbygginguna að engu orðið. Þetta sagði Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksbergs, félags í eigu Arion banka á íbúafundi í Stapa sl. fimmtudag en félagið stendur að því að koma verksmiðjunni í gang aftur og áætlar að fjárfesta fyrir um 4,5 milljarða króna til að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru. Þórður sagði að um 180 störf myndu skapast í verksmiðjunni. Um 200 manns mættu á íbúafundinn sem var hinn fjörugasti.
Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ spurði á fundinum hvernig bankinn stefndi að því að komast frá málinu en hann var viðskiptabanki United Silicon og tók yfir verksmiðjuna við gjaldþrot þess. „Bankinn mun ekki sleppa skaðlaus frá þessu verkefni, það eru takmarkaðar líkur á því,“ sagðir Þórður sem kynnti stöðu mála varðandi verksmiðjuna og framtíðaráform. Þá sagði hann einnig að ljóst væri að margt í uppbyggingarferlinu hefði verið „gert með rassgatinu“.
Tom Arild Olsen, norskur ráðgjafi sem komið hefur að málum kísilvera í Noregi og kom einnig að ráðgjöf síðustu mánuðina hjá United Silicon segir að kísilverksmiðjan í Helguvík og rekstur hennar hafi verið í engu samræmi við það sem hann og hans samstarfsaðilar hans séu vanir að sjá í norskum kísilmálmverksmiðjum og hafi þeir komið í þær allar.
„Ný úrbótaáætlun gerir ráð fyrir að sú tækni sem kísilverið byggi á sé sambærileg við það sem þekkist í þessum iðnaði um allan heim en í Noregi eru sjö sambærilegar verksmiðjur sem starfa í samræmi við útgefin starfsleyfi og í sátt við þar til bær yfirvöld. Eftirlitsaðilar í Noregi fylgjst grannt með þessari starfsemi og að starfsemi þeirra sé í takt við leyfi þeirra,“ sagði Tom.
Í máli hans kom fram að rekstraraðili sem og Umhverfisstofnun gera ráð fyrir að vandamál geti komið upp við endurræsingu verksmiðjunnar en hár neyðarskorsteinn muni bæta stöðuna til muna
Ofninn í kísilverksmiðju United Silicon var aðeins í notkun í 50% af tímanum meðan hún starfaði. Búnaður til steypunnar bilaði oft og þá þurfti að grípa til neyðarúthleypinga. Þá voru vandamál vegna lyktar tengdar óstöðugleika í rekstri ofnsins, tíðum stoppum og of lágu hitastigi á ofninum. Þetta kom fram í máli Arnar Steinars Sigurðssonar frá Verkfræðistofunni Verkís á íbúafundinum. Hann fór yfir ýmis mál úr forsögunni og einnig hvernir standa þyrfti að málum í nýrri uppbyggingu eins og endurbætur á ofni, gerðar yrðu endurbætur á hreinsun útblásturs og meðhöndlun reyks, uppsetningu neyðarskorsteins, byggingu fleiri húsakynna á lóðinni og breytingum á meðhöndlun og geymslu framleiddrar vöru.
Margir fundargestir lögðu fram spurningar á fundinum og nokkrum var heitt í hamsi. „Afsakið meðan ég æli. Ég vil sjá ykkur fara burt héðan og vil ekki kynnast ykkur betur,“ sagði ung kona og nokkur fleiri ummæli í svipuðum dúr féllu. Þá voru forráðmenn Stakksberg spurðir hvort þeir myndu greiða vandgreidda skuld United Silicon við Reykjanesbæ upp á 180 milljónir króna og ef svo væri þá mættu þeir láta upphæðina renna til Knattspyrnudeildar Keflavíkur og fékk tillaga góð viðbrögð úr salnum. Þórður Ólafur svarði því til að þessi skuld yrði greidd af Stakksbergi til Reykjanesbæj, annað væri ekki hægt í ljósi nýrra aðstæðna.