Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúafundur um mótun ferðamálastefnu
Fimmtudagur 17. nóvember 2016 kl. 09:23

Íbúafundur um mótun ferðamálastefnu

Íbúafundur um mótun ferðamálastefnu Reykjanesbæjar var haldinn í Stofunni í Duushúsum miðvikudaginn 16. nóvember.  Á fundinn voru mættir ferðaþjónustuaðilar, bæjarfulltrúar og aðrir áhugasamir íbúar um ferðaþjónustu í Reykjanesbæ.  Ferðamönnum sem fara um Leifsstöð hefur fjölgað mikið síðustu ár og ef spár ganga eftir mun sú fjölgun halda áfram næstu árin. 

Ferðaþjónusta skipar æ stærri sess í Reykjanesbæ enda hefur ein mesta fjölgun ferðamanna verið á Suðurnesjum. Þetta hafa tölur um fjölgun gistinátta sýnt sem og skýrsla Nordregio, norrænu rannsóknarstofnunar um stöðu norrænna svæða. Þar hafa Suðurnesin jafnframt verið nefnd sem svæði tækifæra. Kallað hefur verið eftir ferðamálastefnu fyrir sveitarfélagið og hefur verið starfandi ferðamálateymi sem hefur haft það á verkefnaskrá sinni. Þessi fundur var liður í upphafi þess að hanna slíka stefnu fyrir sveitarfélagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúafundurinn fór þannig fram að byrjað var á stuttri kynningu og síðan skiptu fundarmenn sér niður á fimm umræðuborð. Meðlimir ferðamálateymisins dreifðu sér á borðinn og voru umræðustjórar. Eitt umræðuefni var á hverju borði og þátttakendur færðu sig á milli borða og tóku þátt í öllum umræðuefnunum.

Umræðuefnin voru:
Framtíðarsýn ferðaþjónustu í Reykjanesbæ, verkefni, einkenni Reykjanesbæjar sem ferðamannastaðar, markaðssetning og að lokum umhverfi og samgöngur.

Umræðurnar voru fjörugar og málefnalegar.  Rætt var um hvernig mætti fá fleiri ferðamenn til að heimsækja sveitarfélagið og stoppa lengur.  Einnig sköpuðust umræður um hvernig mætti koma á betri samgöngum á milli flugstöðvarinnar og sveitarfélagsins. Rætt var um það hvernig mætti kynna sveitarfélagið betur og þá þjónustu sem er í boði fyrir ferðamenn. Umræða skapaðist líka um hvernig mætti virkja bæjarbúa enn betur til að fjölga ferðamönnum og gera sveitarfélagið meira aðlaðandi. Þetta er aðeins brot af þeim umræðum sem fóru fram á umræðuborðunum. Unnið verður síðan áfram með hugmyndirnar og umræðupunktanna sem komu fram á fundinum og verður sú vinna í höndum ferðamálateymisins.

Myndir og texti: Óskar Birgisson.