Íbúafundur með bæjarstjóra: Mörg verkefni til að virkja atvinnuleitendur
Í Reykjanesbæ eru fimm sérverkefni í gangi sem miða að því að styrkja atvinnuleitendur. Árni Sigfússon, bæjarstjóri fór yfir helstu leiðir sem í boði væru í þessum tilgangi, á íbúafundi í Innri Njarðvík í gærkvöldi.
Árni nefndi Virkniverkefnið sem miðar að því að ráða fólk til starfa í 50% vinnu sem verið hefur lengi á fjárhagsaðstoð. Í Reykjanesbæ er stærsti hópur á landinu sem lengst hefur beðið eftir störfum í yfir 3 ár, hefur því misst atvinnuleysisbætur og leitar til bæjarins með fjárhagsaðstoð. Þetta verkefni miðar að því að efla virkni þessa hóps.
Þá nefni Árni Fjölsmiðjuna sem er í fullum undirbúningi en þar er verið að skipuleggja húsnæðið sem Húsasmiðjan nýtti áður að Iðavöllum. Þarna er um að ræða aðstoð fyrir yngsta hópinn (16 - 24 ára) til að tryggja þeim virkni og endurhæfingu.
Árni nefndi einnig Fjörefni, en það er námskeið fyrir ungt fólk í atvinnuleit sem fer fram í 88 húsinu. Þar er farið yfir ferilskrár, hvaða tækifæri eru á atvinnumarkaðnum fjármál, markmiðasetningu, skapandi hugsun ofl.
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur boðið margvísleg námstengd verkefni til að styrkja fólk í atvinnuleit eða byggja sig upp fyrir frekara nám.
Að lokum nefndi Árni að stóraukin starfsemi er innan Virkjunar, miðstöðvar fyrir fólk í atvinnuleit, að Ásbrú, sem sérstaklega var stofnað til í í janúar 2009 til að styðja við atvinnuleitendur bæði faglega og félagslega. Hópur sjálfboðaliða hefur unnið vel með atvinnuleitendum að margvíslegum tómstunda- og fræðsluverkefnum.
Bæjarstjóri ítrekaði að ekkert kæmi í stað þeirra starfa sem ötullega væri unnið að því að skapa á svæðinu, en mikilvægt væri að atvinnuleitendur finndu ríkan stuðning samfélagsins til að halda virkni sinni á meðan beðið er starfa.
Næstu íbúafundir með bæjarstjóra verða á miðvikudagskvöld í Njarðvíkurskóla og á fimmtudagskvöld í safnaðarheimilinu í Höfnum. Fundirnir hefjast kl. 20:00.
Myndin að ofan: Íbúar velta fyrir sér framkvæmdum í sumar. Að neðan: Bæjarstjóri og forstöðumenn hjá Reykjanesbæ ræddu við íbúa. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson