Íbúafjöldinn í Vogum nálgast fyrra met
Íbúum í Sveitarfélaginu Vogum hefur fjölgað talsvert undanfarna mánuði, rétt eins og reyndin er í öðrum sveitarfélögum í landshlutanum. Í upphafi árs 2016 bjuggu um 1.100 íbúar í Vogum, ári síðar voru þeir orðnir rétt um 1.200 og nú í þessari viku er fjöldi íbúa kominn í 1.243. Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, greinir frá þessu í vikulegu fréttabréfi sínu.
„Við erum því farnir að nálgast mesta fjölda íbúa sem var fyrir hrun, en þá voru liðlega 1.250 íbúar skráðir til heimilis í sveitarfélaginu. Sé rýnt betur í tölfræðina kemur í ljós að samsetningin er að breytast, þ.e. innbyrðis hlutfall hinna ýmsu aldurshópa. Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun undanfarin tvö ár fækkaði nemendum grunnskólans úr 195 í 175 milli þessa og síðasta skólaárs. Meðalfjöldi barna á leikskólaaldri í hverjum árgangi er minni en meðalfjöldi barna á grunnskólaaldri í hverjum árgangi. Allt eru þetta í senn athyglisverðar og þýðingarmiklar staðreyndir sem gefa þarf gaum þegar kemur að uppbyggingu innviða og þjónustu í sveitarfélaginu,“ segir Ásgeir bæjarstjóri.