ÍAV og United Silicon deila um framkvæmdir í Helguvík
Íslenskir Aðalverktakar hættu framkvæmdum við kísilver United Silicon í Helguvík á hádegi í gær. Að sögn Sigurðar R. Ragnarssonar, forstjóra ÍAV, var það vegna ógreiddra skulda sem slaga hátt í milljarð. Ekki er öll upphæðin þó gjaldfallin. Hins vegar segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, að fyrirtækið hafi rift samningi við ÍAV vegna ýmissa vanefnda, til að mynda við skil á verkinu sem hann segir hafa tafist. Þá hafi ÍAV innheimt hærri upphæð en samið var um.
„Við fengum þau skilaboð að United Silicon ætli ekki að greiða neitt af þessari upphæð og því var þessi ákvörðun tekin,“ segir Sigurður.
ÍAV hefur verið aðalverktaki við framkvæmdir kísilversins og var að leggja lokahönd á þær þegar framkvæmdum var hætt í gær. Enn á verktakafyrirtækið búnað á staðnum sem Sigurður segir að þeim hafi verið varnað að sækja. „Við ætlum þó ekki að standa í handalögmálum við starfsfólk United Silicon til að sækja búnaðinn, heldur láta frekar reyna á dómstólaleiðina.“ Á framkvæmdatímanum hefur ÍAV verið með mikinn búnað á svæðinu en að sögn Sigurðar er það sem eftir er óverulegt í samanburði var það sem áður var þar, en þó nokkurra milljóna virði. Magnús segir hluta af búnaðinum hafa verið keyptan af ÍAV en að United Silicon hafi þegar greitt fyrir hann og því hafi lögregla verið kölluð til í gær þegar ÍAV var að fjarlægja búnaðinn. Magnús kveðst fagna því að málið fari fyrir dóm og vonar að það leysist þar. Áfram verði haldið með framkvæmdir sem eru á lokametrunum og framleiðsla hafin í ágúst.