ÍAV hættir með morgunmat til að draga úr kostnaði
Frá og með 30. apríl næstkomandi verður starfsmönnum Íslenskra Aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli ekki boðið upp á morgunmat, en tilkynning þessa efnis barst starfsmönnum fyrirtækisins í dag. Í tilkynningunni segir: „Vegna verulegs samdráttar í rekstri ÍAV. hf. á Keflavíkurflugvelli neyðist fyrirtækið til að draga úr öllum kostnaði svo framarlega sem unnt er. Því hefur verið ákveðið að hætta að vera með morgunmat frá og með 30. apríl 2003.“ Í tilkynningunni sem er undirrituð af Árna Inga Stefánssyni starfsmannastjóra fyrirtækisins segir einnig: „Okkur þykir miður að þurfa að grípa til þessara aðgerða, en þær eru nauðsynlegar vegna breyttra aðstæðna.“