Í starfsnám hjá alþjóðlegum samtökum
- hjálpar blaðamönnum, bloggurum og sjálfstæðum miðlum að verja rétt sinn.
„Ég er náttúrulega bara ofsalega ánægður með þetta og satt að segja svolítið stoltur að fá svona tækifæri. Í umsóknarferlinu þurfti ég að skrifa svokallað letter of interest (áhugayfirlýsing) auk þess sem þau vildu fá ritdæmi á ensku þannig ég sendi þeim ferlega spennandi ritgerð um staðfesturétt. Svo þurfti ég náttúrulega að senda ferilskrá og áfangavottorð til þess að staðfesta námsárangur. Ég veit að þau fá umsóknir frá háskólanemum um allan heim þannig að þetta er ákveðin viðurkenning fyrir mig og námið mitt við Háskólann á Bifröst,“ segir Keflvíkingurinn Hjörtur Ingi Hjartarson, meistaranemi í lögfræði við Háskólann á Bifröst. Hann hefur verið samþykktur í starfsnám til alþjóðlegra samtaka sem heita Media Legal Defence Initiative og eru með starfstöð í London. Samtökin hjálpa blaðamönnum, bloggurum og sjálfstæðum miðlum að verja rétt sinn.
Verður í góðu sambandi á Skype
Hjörtur Ingi viðurkennir að vera svolítið stressaður fyrir þessu enda sé hann algjörlega að stökkva út í djúpu laugina. „Ný vinna, ný borg og allt á ensku. En ég kem til með að læra mikið af þessu, það er enginn vafi á því. Erfiðast finnst mér þó að kveðja konuna og börnin í 2 mánuði en við munum vera í góðu sambandi með Skype.“ Hann segir ómögulegt að segja til um hvaða dyr þetta gæti opnað, hann sé náttúrulega að öðlast mjög fína reynslu í alþjóðlegu umhverfi sem getur nýst honum í frekara námi eða í starfi. „Við Kristín, konan mín, höfum aðeins skoðað það að fara erlendis í frekara nám. En hún var nýlega ráðin til starfa við Háskólann á Bifröst. Það væri náttúrulega frábært að komast í starf sem fyrst að námi loknu.
Áhugaverðast sem fengist er við hverju sinni
Í starfsnámi sínu mun Hjörtur Ingi vinna að meistararitgerð sinni og útskrifast í sumar, ef allt gengur upp. Spurður um áhugasvið innan lögfræðinnar segir hann að í BS náminu hafi aðaláherslan verið lögð á þau svið lögfræðinnar sem tengist viðskiptum og rekstri. „Ætli ég verði ekki að segja að hlutafélagaréttur og evrópskur félagaréttur standi upp úr þar. Í meistaranáminu tók ég námskeiðið Mannréttindi sem var kennt af starfsfólki á lögmannstofunni Réttur. Það kveikti hjá mér þennan áhuga á mannréttindum og er að hluta til ástæðan fyrir því að ég er á leiðinni í þetta starfsnám.“ Hann eigi þó erfitt með að segja að eitthvað eitt sé áhugaverðara en annað í náminu, því það sem hann fæst við hverju sinni sé alltaf áhugaverðast.
Stefnir á lögmannsréttindi að námi loknu
Ásamt því að vera í starfsnáminu og skrifa meistararitgerðina mun Hjörtur Ingi taka þátt í verkefni á vegum skólans sem kallast Law Without Walls en það er alþjóðlegt samstarfsverkefni margra virtustu háskóla heims svo sem Harvard, Stanford, New York University, Fordham, IE Business School, University College London, University of Sydney og Peking University. Markmið verkefnisins er að auka víðsýni laganema og lögfræðinga almennt auk þess sem reynt er að hvetja til nýsköpunar á sviði lögfræði. „Ég er bara bjartsýnn á framhaldið. Námið á Bifröst hefur undirbúið mig þannig að ég treysti mér til þess að taka að mér hin ýmsu verkefni, hvort sem þau tengjast lögfræði eða öðru, enda með mjög góðan grunn. Auðvitað langar mig mest að starfa sem lögfræðingur eða lögmaður og stefni á að öðlast lögmannsréttindi fljótlega að námi loknu. En framtíðin verður bara að leiða það í ljós hvað maður fer að gera,“ segir Hjörtur Ingi.
VF/Olga Björt