Í lífshættu vegna leka fíkniefnapakkningar
Íslenskur karlmaður var nýverið hætt kominn þegar pakkning með fíkniefnum sem hann hafði komið fyrir innvortis fór að leka. Maðurinn var fluttur með hraði á Landspítala þar sem gerð var á honum aðgerð sem án vafa hefur bjargað lífi hans.
Umræddur karlmaður, sem er á þrítugsaldri, kom með flugi frá Manchester 31. október síðastliðinn. Tollverðir stöðvuðu hann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um fíkniefnasmygl. Lögreglan á Suðurnesjum handtók hann síðan og flutti á lögreglustöð. Hann reyndist vera með 41 pakkningu af fíkniefnum innvortis. Þær innihéldu 300 grömm af kókaíni og 60 grömm af extacy efni.
Lögregla telur málið upplýst.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-500. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.