Í Jesú nafni verður að flýta byggingu álvers
Sóknarpresturinn í Útskálakirkju hefur í Jesú nafni biðlað til stjórnvalda að greiða götu álvers í Helguvík. Lét presturinn þau ummæli falla í messu í morgun og lét ekki þar við sitja heldur gagnrýndi stjórnvöld fyrir öfgafullan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Það er Eyjan.is sem greinir frá þessu.
Messaði sóknarpresturinn, Sigurður Grétar Sigurðsson, í morgun og var messu hans útvarpað á Rás 1. Fór Sigurður mikinn og bað stjórnvöld að flýta og greiða fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í nafni Jesú en Útskálakirkja er á Suðurnesjum.
Undraðist Sigurður ýmislegt sem stjórnvöld hafa á borði sínu og talaði um undarlegar tafir á atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjunum. Þá lét hann stjórnvöld heyra það fyrir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og benti á að atvinnuleysi væri mikið á Suðurnesjum og uppsagnir þar gerðu illt verra.