Í fangelsi: Örn Garðarsson í vítahring skattsins
Um svipað leyti og framhaldsskólanemendur hófu sumarvinnu sína gekk veitingamaðurinn góðkunni Örn Garðarsson inn í hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Þar hófst afplánun hans vegna dóms sem hann hlaut vegna vangoldinna opinberra gjalda. Um tíma var Örn einn umsvifamesti veitingamaður landsins þar sem hann rak Brasseri Borg, Kaffi Reykjavík og Skuggabarinn. Í viðtali við jólablað Víkurfrétta segir Örn frá vítahringnum vegna skattsins, lífinu í fangelsinu og hvað taki við. Örn var dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar.
eðrið er fallegt og Kirkjufellið skartar sínu fegursta. Fljótlega eftir að beygt er inn á vegarspottann af þjóðveginum í átt að Kvíabryggju sjást húsin. Ró er yfir öllu og það er engan veginn hægt að ímynda sér að á þessum stað sé rekið fangelsi. Það er líf og fjör í beitningaskúrnum - fangarnir eru fegnir að það sé vinna.
-Ég er að leita að Erni Garðarssyni. Ég var búinn að hringja á undan mér, segi ég við fangavörðinn sem stóð á hlaðinu.
-Þeir eru þarna inni - farðu bara inn til hans.
Ég geng inn í skúrinn og þar er allt á fullu í beitningu. Örn var með Keflavíkurhúfu á höfðinu og í sjóstakk. Lyktin eins og í venjulegum beitningaskúr.
-Smelltu þér bara inn í herbergi til mín. Ég bý í Kalmánstungu, segir Örn við mig og eftir að hafa fengið leiðbeiningar frá fangaverðinum geng ég inn í fangelsið - Kvíabryggju. Það er ekki eins og maður gangi inn í fangelsi; það eru engir rimlar fyrir gluggum. Örn hefur komið sér vel fyrir í herberginu sínu og það er eins heimilislegt og það getur orðið. Á skápnum er sjónvarsptæki og myndspilari. Fjölskyldumynd hangir við skrifborðið og á rúminu er Spider Man koddi. Í glugganum eru blóm og þaðan er útsýni út í móann. Á borðinu er fartölvan sem Örn notar á hverjum degi. Á hillunni fyrir ofan rúmið eru fæðubótarefni og ýmislegt matarkyns. Í neðri hillunni eru bækur, penslar, olíulitir og annað smádót. Fyrir ofan rúmið eru bækur - Da Vinci lykillinn og Samræður við Guð I og II.
-Afsakaðu biðina. Ég skellti mér í sturtu - það kemur svo hrikaleg lykt af manni í beitningunni, segir Örn þegar hann gengur inn í herbergið. Hann sest á rúmið ogsegist vera tilbúinn í viðtal.
Örn er kvæntur Írisi Björk Guðjónsdóttur og eiga þau fjögur börn saman. Að auki á Örn einn strák. Erni líður vel en hann saknar fjölskyldunnar. „Mér líður vel, en auðvitað sakna ég fjölskyldunnar og alls þess daglega sem maður var að gera. En þetta, að vera kippt svona út og vera bara einn með sjálfum sér er alveg frábært - þó það kunni að hljóma fáránlega. Að mínu mati ætti hver maður að prófa að vera kippt út úr öllu í nokkurn tíma til að hugsa sinn gang og fara í gegnum sín mál. Það yrði hollt hverjum þeim sem myndi prófa það,“ segir Örn og lítur út um gluggann í herberginu sínu. „Þegar ég er einn með sjálfum mér þá læt ég daginn líða, hugsa til baka og um framtíðina; hvað maður ætli að gera. Ég hugsa líka meira um ættingja, vini og kunningja sem maður hefur ræktað.“
Kemur í ljós hverjir eru vinir
Örn segir að eftir að hann hóf afplánunina hafi komið í ljós hverjir vinir hans væru. „Þegar maður er á svona stað þá sér maður hverjir eru vinir manns. Þegar ég kom hingað þá byrjaði maður að hringja í vinina til að spjalla og svona en eftir smá tíma þá áttar maður sig á því að það hringja fáir til baka. Ég hef styrkt sambandið við alvöru vini mína,“ segir Örn alvörugefinn og bætir við. „Ég hef einnig notað tækifærið til að styrkja tengslin við ættingja mína. Maður gefur sér núna tíma til að skrifa bréf og senda þau og ég fæ bréf send til baka. Það hefur styrkt mig.“
Með tilbúnar uppskriftir í bók
Frá því Örn kom á Kvíabryggju hefur hann fært flestar sínar uppskriftir upp og komið þeim saman í handrit – og stefnan er að gefa út uppskriftabók. „Þetta eru uppskriftir sem ég hef verið að vinna með á veitingastöðum – flestar handskrifaðar. Þetta eru tæpar 500 blaðsíður, en á sumum síðum er ein uppskrift og á öðrum fleiri. Ég ætla mér að gefa út matreiðslubók fyrir jólin 2005.“
Þúsund kall á bala
Á hverjum morgni vaknar Örn klukkan 6:45 og fær sér morgunmat. Að því loknu fer Örn í ræktina, að lesa eða stússast í tölvunni. „Þegar ég kom inn tók ég ákvörðun að fara ekki að liggja í leti. Ég tók ákvörðun um að vakna alla morgna og fara að gera eitthvað uppbyggjandi ef það er ekki vinna,“ segir Örn en á Kvíabryggju vinna fangar við beitningu eða við að lagfæra fiskikör. „Við fáum um þúsund kall á hvern bala sem við beitum. Í haust fékk ég það verkefni að sjá um beitninguna, þ.e. ég útbýtti bölum, sker beituna og kem henni til þeirra sem eru að beita. Ég fæ prósentur af hverjum beittum bala en þegar einhver vinna er þá erum við að beita frá 12 og upp í 40 bala á dag,“ segir Örn en flestir fanganna á Kvíabryggju vilja hafa eitthvað að gera. „Það er langbest. Þá líður dagurinn hratt og maður hefur einhverjar tekjur. Það kostar að lifa hér. Maður þarf að kaupa sér nauðsynjar og eitthvað til að hafa sem snarl í herberginu. “
Vinnur stundum með matráðskonunnni
Fangarnir á Kvíabryggju eru þar allir af einhverri ástæðu. Örn segir fangahópinn vera góðan og að það myndist ágætis tengsl manna á millum. „Menn verða þungir hér sem eðlilegt er miðað við aðstæðurnar. Menn standa hinsvegar saman og það er gaman að sjá hvernig við sjálfir tökum á því og hjálpum hverjum öðrum. Starfsfólkið hér er í einu orði sagt frábært,“ segir Örn brosandi en hann hefur hjálpað til í eldhúsi fangelsisins. „Jú, ég hef aðeins unnið með matráðskonunni og það hefur verið frábært. Hún hefur leitað töluvert til mín og ég hef látið hana hafa mikið af uppskriftunum mínum. Hún hikar ekki við að kalla ef hana vantar aðstoð og það finnst mér frábært.“
Gott að fá fólkið sitt í heimsókn
Fangavist Arnar bitnar eðlilega á fjölskyldunni og nánustu ættingjum. Örn segir að það hafi verið erfitt fyrir foreldra hans að heimsækja hann – sérstaklega þegar hann var í hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, enda ekki staður sem foreldrar gera ráð fyrir að þurfa að heimsækja barn sitt á. „Það er kannski ekki svo skrýtið þegar maður er læstur inn í klefa allan daginn og fær einn klukkutíma á dag til að ræða við ættingja. En sem betur fer er þetta allt annað hér á Kvíabryggju. Heimsóknartíminn er frá klukkan níu til sex á laugardögum og sunnudögum. Leyfilegt er að mest þrír komi í einu og allir gestir þurfa að boða komu sína,“ segir Örn og honum finnst alltaf gaman að fá heimsóknir.
Undirbjó eldri krakkana
Örn segir að eldri börnin hafi vitað hvert stefndi – að hann þyrfti að öllum líkindum að fara í fangelsi. „Þau taka þessu furðulega vel. Litli strákurinn minn veit ekki að pabbi hans er í fangelsi. Hann heldur að hann sé að vinna einhversstaðar út á landi. Íris hefur verið dugleg að koma með litla drenginn og yngri dótturina aðra hvora helgi. Hann skilur ekkert í því af hverju hann komi ekki heim – þetta er erfiðast fyrir hann en ég á eftir að útskýra þetta fyrir honum í framtíðinni. Ég var búinn að undirbúa eldri krakkana og þau vissu að hverju stefndi. Þegar kallið svo kom fengu þau öll sjokk,“ segir Örn en í augum hans má sjá að hann saknar fjölskyldunnar. Á veggnum í herbergi hans eru myndir af fjölskyldunni.
Komst ekki út úr vandræðunum
Örn segir að ástæða fangavistarinnar skipti máli – hann hafi ekki slasað neinn eða stundað neina ólöglega starfsemi. „Ég var kominn í vandræði sem ég komst ekki út úr. Það skiptir máli fyrir fjölskylduna að vita þetta. Ég skilaði öllu bókhaldi réttu og öllum skýrslum á réttum tíma. Ég bara gat ekki borgað og lenti í þessum vítahring sem ég hef lýst. Fyrst maður var kominn í þessi mál þá var ekki til neins að vera í einhverjum feluleik. Ég stakk engu undan og á engar eignir á Spáni eða nýjan Pajero jeppa. Við misstum allt okkar,“ segir Örn alvarlegur á svip.
Ekki hægt að semja við skattinn
„Ég bjóst alltaf við að maður myndi redda þessu. En það tókst ekki. Endar náðu ekki saman. Um leið og maður er kominn með einn eða tvo gjalddaga í vanskil þá er bara ekki aftur snúið. Það er ekki hægt að taka upp undir helming veltunnar til að greiða virðisaukann sem þú átt að borga og kannski tvær eldri skuldir. Það bara gengur ekki upp,“ segir Örn en hann segir hrikalegt að komast í vítahring sem þennan. „Um leið og ég áttaði mig á því að ég gæti ekki staðið í þessu áfram þá tók ég ákvörðun um að greiða öllu starfsfólkinu og eins mörgum birgjum fyrirtæksins og ég gat í stað þess að greiða skattinum. Mér fannst ómögulegt að láta alla litlu birgjana blæða fyrir þetta – ég tók þetta á mig og játaði mín brot skilyrðislaust,“ segir Örn en hann gagnrýnir skattayfirvöld. „Það er stórmerkilegt að ekki sé hægt að semja við skattinn um greiðslu á skuldum. Ef þú lendir í vandræðum með að greiða virðisauka fyrir eitt tímabil þá eru litlar líkur á að þú komist út úr því. Vextirnir byrja að tikka fljótlega og þó þú sýnir vilja til að greiða inn á skuldina þá er það ekki metið og þú hættir að ráða við þetta. Það var nákvæmlega það sem gerðist hjá okkur – við hættum að ráða við þetta,“ segir Örn og bætir við. „Við greiddum meirihluta skuldarinnar upp en gátum ekki klárað – það var ekkert tillit tekið til þess þegar dómur var kveðinn upp. Maður var dæmdur fyrir alla upphæðina frá því að ferlið byrjaði.“
Bíða spenntir eftir að losna
„Þetta er engin betrunarvist. Fólki er kippt út úr samfélaginu í einhvern ákveðinn tíma og eftir afplánun eru þeir settir á sama stað aftur í samfélaginu. Það er fullt af strákum sem hafa verið í dópinu sem bíða spenntir eftir að losna til að geta byrjað aftur. Það er ekkert verið að vinna í þvi að fá þessa stráka til að snúa af þessari braut – þeir fá ekki nægan tíma hjá sálfræðingum eða félagsfræðingum,“ segir Örn og hann hefði viljað nýta tímann til að læra. „Það er því miður ekki hægt hér en hefði ég verið á Hrauninu hefði ég getað menntað mig,“ segir hann og brosir.
Ekki hættulegur samfélaginu
En eiga menn sem koma úr fangelsi einhverja framtíð fyrir sér? Verða þeir ekki bara stimplaðir sem tugthúslimir það sem eftir er? „Það er algjörlega undir sjálfum þér komið,“ segir Örn. „Ég held að ég sé ekkert verri maður þó ég hafi ekki geta borgað skattinn og þurft að sitja það af mér í fangelsi. Ég er ekki hættulegur samfélaginu og í raun alveg sami maðurinn og ég var þegar mér var stungið inn.“
Ræktar líkama og sál
Við erfiðar aðstæður skiptir trú manna máli. Trúin á æðri mátt eins og hver og einn skilur hann er ætíð til staðar og það hefur hjálpað fólki. Örn segir trúna hafa hjálpað sér mikið. „Það skiptir mig miklu máli að biðja til Guðs og hugsa til Hans. Ég hef lesið mikið í bókunum Samræður við Guð I og II og þær bækur hafa breytt lífi mínu. Ég undirbjó mig mjög vel áður en ég kom inn og var búinn að lesa aðra bókina. Þessar bækur varpa nýrri sýn á lífið og tilveruna og þær hafa hjálpað mér mjög mikið. Maður fer að velta fyrir sér hver hinn eiginlegi tilgangur lífsins sé og hvað skipti mann mestu máli í lífinu. Það er vinna sem allir þurfa að fara í gegnum og fyrir vikið verða betri einstaklingar með skýrari markmið í lífinu,“ segir Örn en hann hefur einnig ræktað líkamann. „Ég hef verið mjög duglegur í líkamsræktinni og fer flesta daga að lyfta. Ég fer einnig mikið út að hlaupa og í göngutúra. Hreyfingin lætur manni líða vel í líkamanum og það skiptir máli. Það besta sem ég geri þegar mér líður illa er að fá útrás í hreyfingunni,“ segir hann og það er greinilegt að hann hefur stundað líkamsrækt af kappi þegar horft er á líkama hans.
Fór beint í olíuna
Í lok sumars kom samfangi Arnar færandi hendi með olíuliti og pensla. Örn byrjaði strax að mála og hefur gaman af. „Ég fór beint í olíuna,“ segir Örn og hlær. “Þetta er svakalega gaman og það er gaman að prófa þetta. Myndirnar sem ég mála eru flestar af mat eða einhverju matarkyns. En ég hef líka verið að mála trúarlegar myndir. Ætli ég sé ekki búinn að mála jólagjafir handa allri ættinni,“ segir Örn hlæjandi og bendir á eitt málverkið sem hangir upp á vegg.
Hlakkar til að fara á kaffihús
Fangarnir á Kvíabryggju hafa ekki aðgang að internetinu og segir Örn það vera mestu frelsissviptinguna. „Þegar maður er orðinn vanur því að geta farið á netið og náð í þær upplýsingar sem maður þarf þá er hrikalegt að vera tekinn út úr því. Ég tala nú ekki um að missa samskiptin sem maður hefur í gegnum tölvuna,“ segir hann en finnur hann mikið fyrir frelsissviptingunni? „Það er ekkert að bögga mig í dag. Ég er ekki að pirra mig á hlutum sem ég hef ekki aðgang að – ég sé ekki alveg tilganginn með því. Hlutirnir eru bara svona og það þýðir ekkert að vera að pirra sig á því að geta ekki gert hitt og þetta. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að fara á kaffihús og ég læt mig bara hlakka til þess.“
Þjöl í afmæliskökunni
Í haust átti Örn afmæli og í tilefni dagsins komu nokkrir vina hans með afmælisköku úr Keflavík. „Þeir komu hérna Steini á hótelinu, Ingó á Langbest, Axel í Matarlyst og Ási sem var með Glóðina. Það var ofsalega gaman enda mennirnir skemmtilegir og góðir vinir mínir. Þeir hafa líka húmor fyrir þessu en í kökunni höfðu þeir komið fyrir þjöl,“ segir Örn brosandi.
Byrjuðu á núllinu
Eins og flestir Suðurnesjamenn vita hafa Örn og Íris rekið veitingastaðinn Soho við góðan orðstí. Staðnum komu þau á laggirnar eftir að hafa tapað öllu sínu og segir Örn þau vera heppin að reka Soho. „Vinir okkar og kunningjar hafa hjálpað okkur mikið – án þeirra hefði okkur aldrei tekist þetta. Við byrjuðum alveg á núllinu aftur og það er bara frábært að geta það,“ segir Örn en hvað tekur við? „Ég fer aftur að vinna á Soho en Íris hefur séð um staðinn síðan ég fór inn. Hún er algjör nagli.“
Innri skoðun góð
„Auðvitað hefur maður skoðað sinn gang og sína stöðu í lífinu. Og auðvitað gerir það mann að betri manni að vita hvað það er sem skiptir máli í lífinu,“ segir Örn þegar hann er spurður að því hvort fangavistin hafi gert hann að betri manni. „Eins og ég sagði áðan þá hafa allir gott af því að skoða sjálfan sig og vera einir með sjálfum sér. Þannig nær maður að fókusera á allt í kringum sig, laus við allt stressið sem yfirtekur mann yfirleitt.“
Hefur haldið dagbók frá degi eitt
Frá því Örn gekk inn í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hefur hann haldið dagbók um fangavist sína. Í dagbókina færir hann það sem á daga hans drífur á Kvíabryggju og í skrifum sínum segist hann vera heiðarlegur við sjálfan sig. Dagbókina segist hann einnig nota sem tæki til að setja sér markmið. „Þetta eru svona mínar pælingar og það hefur hjálpað mér helling að skrifa þessa bók. Þarna set ég markmiðin mín niður á blað og það hefur veitt mér aðhald. Mér finnst það líka skipta máli fyrir framtíðina að eiga þessa dagbók því ég ætla mér ekkert að fara í felur með það að ég hafi setið í fangelsi. Börnin mín geta lesið dagbókina – ég hef ekkert að fela.“
Í lok febrúar losnar Örn af Kvíabryggju og flyst á fangaheimilið Vernd í Reykjavík. Þar mun Örn dveljast í 3 mánuði og stunda vinnu. „Ég verð að vera kominn inn klukkan sex á kvöldin. Það verður allt annað að vera inni á Vernd og þá getur maður farið að vinna.“
Saknar fjölskyldunnar
Jólin nálgast og sá tími er tileinkaður fjölskyldunni. Örn segir það auðvitað erfitt að vera án fjölskyldunnar um jólin. „Ég sakna krakkanna sérstaklega. Maður verður náttúrulega bara að taka þessu - annars yrði maður kolvitlaus,“ segir hann og bætir við. „Hér er verið að baka og skreyta, bæði að innan og utan. Við erum einnig að þrífa og mála þar sem þarf. Hér er jólalegt,“ segir Örn brosandi.
-Komdu! Ég ætla að sýna þér staðinn, segir Örn þegar viðtalinu lauk formlega. Hann fer um allt húsnæðið. Í vinnuskúrnum halda fangarnir hamstra og þar snýst allt um að þeim líði sem best. Örn gengur niður í fjöruna og bendir á kanínurnar sem lifa villtar í nágrenni fanganna á Kvíabryggju.
-Hér kem ég oft til að hugsa. Hér er gott að spá í hlutina. Það er í raun ekki slæmt að vera hér á Kvíabryggju og þessu fer að ljúka, segir Örn.
Viðtal og myndir: Jóhannes Kr. Kristjánsson - [email protected]
Brot úr dagbókum Arnar Garðarssonar sem hann hefur skrifað frá því hann fór í fangelsi þann 30. maí á þessu ári.
Dagur 1 af 360. Sunnudagur 30. maí 2004
Hver er sinnar gæfu smiður!
Eftir að hafa komið mér fyrir í Hegningarhúsinu Reykjavík við Skólavörðustíg. Ekki fyrir mörgum árum þegar ég var að læra á Brauðbæ, og labbaði hér framhjá, hugsaði maður oft hvernig það værir þarna inni, hvernig aular það væru þarna inni? Ekki hvarlaði það að manni þá að maður væri einn af þeim.
Allir eru mjög almennilegir og kurteisir, starfsmenn og vistmenn. Fyrsta spurning frá flestum er „og fyrir hvað ertu hér inni og hvað verður þú lengi hér?“ Ekki er ég búinn að tala við marga en þeir sem ég hef hitt eru búnir að vera í dóprugli og hafa farið inn vegna þessa.
Herbergið sem ég er með er tveggja manna, með einu borði, tveimur hillum, skápum og fataskáp sem er ekki stærri en í sundlauginni, einn gluggi sem snýr útað Sprvk og nágr. Glugginn er staðsettur við loftið ca 25 cm á hæð og 60cm á lengd.
Hér er sturtuaðstaða, eins og við er að búast, líkamsræktar salur 2 x 3 m, inniheldur eitt hjól og 2 lóð 10 kg hvort. Er það vegna þess að um daginn þá handleggsbraut einn gæinn einhvern með stönginni og annar hennti léttari lóðunum í einhvern. Hér er einnig slatti af bókum, video spólum og leikjum. Útivistartíminn er 30 mínútur á morgnana og 30 mín eftir hádegi, garður með möl, grasi og körfuboltaspjaldi.
Í gær þegar ég fór að sofa eftir að hafa búið um mig, horfði ég á sjónvarpið, Bío rásina og síðan á körfubolta leik Sacramento gegn La lakers, sofnaði nú reyndar yfir honum. Þegar ég vaknaði um kl 07;30 horfði ég aðeins á sjónvarpið uns klefarnir voru opnaðir kl 8.00. Fékk mér morgunmat súrmjolk og special k, náði síðan í restina af dótinu mínu og fór með það inn í herbergi gekk frá því og gerði tölvuna klára og stillti öllu upp.. kl 9,30 var komið að útivistartíma og nýtti ég mér hann. Fór í körfu og sippaði helling, spjallaði við vörðinn og nokkra af strákunum. Þega inn kom hélt ég áfram að æfa. Hjólaði í 20 mín., síðan armbegjur og magaæfingar - Þá var kominn Lunch. Fékk ég mér grænmetisfæði og var það ágætt. Fór síðan að skrifa og vinna í tölvunni, átta sig enn frekar á aðstæðum. Boðið var uppá köku og brauðtertu í kaffinu, fór síðan aðeins út eftir það, horfði á Georg Michael í Holliwood true stories. Fór síðan að sofa.
Dagur 13 - 348 dagar eftir. Föstudagur 11.06.04
Ein helv... flækja
Rétt er að segja að dagurinn hafi verið ein flækja. Byrjaði að beita ferskur og fínn um morgunnin, fyrsti balinn var ekki alveg nógu góður. Búinn með hann rétt fyrir hádegi, byrjaði á þeim seinn og fór svo í lunch. Viti menn hann var ein flækja tók okkur 2 tíma að greiða úr stóru flækjunni en ég var sjálfur að dunda við þær smærri. Var ekki búinn með hann fyrr en um 17 byrjaði á no 3 fór svo í dinner og kláraði balann - var bara nokkuð snöggur með hann.....
En svona til að redda deginum þá kom Hjördís frænka og Einar með börnin í heimsókn en þau voru á ættarmóti á Snæfellsnesi. Þau stoppuðu allt of stutt, en fyrir þá sem ætla að kíkja á kauða þá verður að hringja með minnst dags fyrirvara og fá kennitölu. Það er gert til öryggis vegna þess að sumir sem hafa gist hérna eru fíklar og til að fyrirbygga að neitt óvænt gerist...mjög eðlilegt; En það var virkilega gaman að fá þau í heimsókn, vona að þau hafi tíma seinna. Alltaf gaman að fá heimsókn. Þau gáfu mér smá nammi og vitiði hvað ég missti mig um kvöldið í nammi - er öruglega ekki búinn að borða nammi í tvo mánuði og gjörsamlega tapaði mér...þannig að ég verð að fara í ræktina á morgun, þvoði vinnufötin og horfði síðan á sjónvarpið og að sofa eftir annars mjög pirraðan dag fyrir utan þessa meiriháttar heimsókn.........Einnig er gott að hringja, ef að einhverjir eru til í að koma með eitthvað fyrir mig, mig vantar alltaf ferska ávexti og skyr.
Dagur 23 338 dagar eftir. Mánudagur 21.06.04
Sumarið er komið!
17:04 var að koma inn úr sólinni. Það var vinna hjá okkur í dag og verður eitthvað næstu daga. Var búinn um kl 13:30 fór þá á hlaupa. Hljóp út að hliðinu, en sá ekkert hlið bara kindagrindur, þannig að ég hljóp áfram. Var á leiðinni út að vegamótum þegar strákur eins starfsmannsins kom hjólandi á móti mér frá Grundarfirði og sagði: „FÉKKSTU LEYFI TIL AÐ HLAUPA SVONA LANGT?“ Þannig að ég snéri við og hljóp í skyndi til baka, leiðin er víst ekki nema um 2,1 km að kindagrindinni en var kominn töluvert lengra. Hljóp það á 14 mín. með því sem ég fór of langt, verð að taka það bara aftur til að sjá á hvaða tíma ég á að ná þessu. Fór síðan að æfa og út í sólina að lesa og síðan aðeins að æfa gamla kimiwasa takta og inn að skrifa ( kímíwasa er sjálfsvarnaríþrótt sem ég æfði þegar ég var 15-16 ára), er að hlusta og horfa á dvd með Davíð Boga hinum enska meðan ég er að skrifa,, var að lesa úti í sólinni bókina Sálfræði einkalífsins um breytingarskeiðið og sorgarferli. Mjög athyglisverð lesning - eitthvað sem við öll höfum eða eigum eftir að upplifa. Ætla að skrifa nokkur bréf sem ég þarf að senda í pósti þar sem maður er ekki nettengdur og get ekki sent email.
Dagur 44. 317 dagar eftir. Mánudagur 12. júlí 2004
Ný vika byrjuð og lítið umm að vera
18:05 Var að klára að skrifa gærdaginn og er að hella mér uppá grænt te eins og í gær. Vaknaði ekki fyrr en um kl 10 í morgun og fékk mér þá skyr shake og hékk í tölvunni til hádegis- ætlaði að fara að æfa en komst ekki að. Eftir lunch horfðum við á geimálfinn Alf og síðan fór ég inn að leggja mig - er hálf svona down eftir heimsóknina á laugardag; maður fer að hugsa allt of mikið.. keyrði mig upp og fór í ræktina og tók ágætlega á. Í sturtu og hér er ég nú.. var að frétta að það er bátur búinn að semja við okkur um 50 bala annan hvern dag þannig að það ætti að byrja hjá okkur aftur vinna á morgun og kannski út þessa viku í það minnsta.
Eftir dinner gerði maður mest lítið, Raggý hringdi og spjölluðum vel saman, hún ætlar að kíkja næsta laugardag, annars var bara horft á tv slappað af
Dagur 88 272 dagar eftir. Miðvikudagur 25. ágúst 2004
Búinn að afplána ¼ af heild.
22:22 fimmtudagskvöld; sit nú og er að hita mér te (kamillu) hlusta á night music (classic) svona fyrir háttinn. Var að koma úr sturtu eftir freka mikla maga og brennslu æfingu hér rétt áðan. Dagurinn í dag fór annars í það að beita 2 bala í morgun slá aðeins til í múrblöndu, hjálpa til í eldhúsinu og skrifa nokkrar uppskriftir.......meðal annars pabbi á afmæli í dag, hringdi í hann og var hann með matareitrun..vona að það verði nú ekki neitt alvarlegt. Hringdi í Írisi hún var með fúlar staffafréttir frá Soho...hringdi í Raggý og spjallaði við hana aðeins einnig stelpurnar en þær voru í heimsókn hjá ömmu sinni. En Raggý ætlar að reyna að kíkja þarnæstu helgi á sunnudeginum með Siggurósu með sér, verður gaman að hitta þær vinkonurnar.
Í gær má segja að dagurinn hafi verið svipaður og í dag , beita, æfing eldhúsið en gerði ekki neitt um kvöldið, hékk í tölvunni og horfði síðan á tv og að sofa..vakna alltaf á næturnar við það að það eru komnar nokkrar rollur að jarma fyrir utan gluggan hjá mér, frekar pirrandi. Íris hringdi um kvöldið, með ýmsar fréttir, fór á fund með fangelsismálastjóra, og fékk svör við sínum spurningum þar..No comment.. Talaði aðeins við Marel og sagði honum meðal annars frá naggrísunum sem okkur áskotnaðist hér í gær, var hann spenntur að sjá þær næst þegar þau koma en þau komast ekki næstu né þarnæstu helgi þar sem þá er Ljósanótt í Kef og í nógu að snúast..Ætla að slá inn nokkrar uppskriftir og fara svo að sofa nóg af bölum á morgun.
Dagur 112 260 dagar eftir. Laugardagur 18. september 2004
BÚINN MEÐ 4 MÁNUÐI, 16 VIKUR
Engin heimsókn um helgina
Það getur oft verið bara ágætt að vera einn með sjálfum sér á svona helgidögum,. Eftir að hafa fengið mér morgunmat , las ég í bókinni samræður við guð no 2, hef verið að grípa í hana sl. mánuð svona 5-10 bls pr dag. Sofnaði svo út frá henni, eftir mat fór í í ræktina var ekki alveg með sjálfum mér þanni að ég tók bara smá brennslu í 40 mín og aðra æfingu um kvöldið í staðinn.. a
Dagur 125 246 dagar eftir. Föstudagur 1. október 2004
Nýr dagur með bjartari tíð
Nú er ekkert annað í boði en að vera bjartsýnn, þó svo að ég geti að þessa stundina sé það mér ekki efsti í huga, margt kemur upp, alltaf þetta stóra “EN HVAÐ EF” en maður veit að það þíðir ekki neitt að hugsa þannig, heldur að taka hlutunum eins og að þeir eru og bíða og sjá, láta lífið halda áfram.. Hef notað daginn í að fá smá útrás í salnum fór tvisvar í dag, Íris hringdi í morgun og var í sjokki yfir fréttaflutningunun þar sem talað er um að skuldirnar séu um 60. mills en ekki talað um að það var búið að borga inná 48 mills aðeins 12 mills sem standa á milli fyrir Borgina+ 15 mills + álag þannig að í heildina með álagi ætti þetta að vera um 54 mills með álagi fyrir bæði fyrirtækin.. Mamma hringdi um kvöldið og ætla þau að koma á morgun. Bet ahringdi og sendi mér stuðning, ekki veitir af.. annars horfði ég bara á sjónvarpið um kvöldið og fór svo að sofa.