Hyllir undir byggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum
Bygging hjúkrunarrýmis í Reykjanesbæ virðist loks vera í sjónmáli og er líklegt að vinna við hönnun geti hafist strax í næsta mánuði. Áætlanir gera ráð fyrir byggingu 30 nýrra hjúkrunarrýma við Nesvelli sem er um það bil sá fjöldi einstaklinga sem beðið hefur í brýnni þörf eftir þessu úrræði. Ef áætlanir ganga eftir gæti framkvæmdum verið lokið seinni hluta næsta árs.
Félagsmálaráðuneytið hefur undanfarna mánuði verið í viðræðum við fulltrúa 10 sveitarfélaga á landinu um byggingu hjúkrunarheimila víðs vegar um land en samkvæmt áætlunum ráðuneytisins er gert ráð fyrir að 400 ný rými verði byggð á næstu 2-3 árum.
Hluti þeirra mun verða í Reykjanesbæ en áætlanir gera ráð fyrir að nýtt 30 rúma hjúkrunarheimili rísi á Nesvöllum. Gert er ráð fyrir að Reykjanesbær byggi húsið en ríkið leigi það til næstu 40 ára undir starfsemi hjúkrunarheimilisins. Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum mun væntanlega sjá um rekstur þess.
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ, og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hafa farið fyrir viðræðunefnd sveitarfélaganna í samskiptum við ráðuneytið.
Böðvar sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að árangursríkur fundur hafi verið haldinn í gær með fulltrúum félagsmála- og fjármálaráðuneyta þar sem mál hefðu þokast talsvert áfram. Ráðuneytið hafi lagt fram drög að tilboði til sveitarfélaganna sem nú sé verið að fara yfir og taldi Böðvar líkur á að samningar næðust öðru hvoru megin við næstu helgi.
„Þetta er búið að vera langt ferli og talsvert flókið, enda í fyrsta skipti sem ríkisvaldið fer þessa leiguleið sem sveitarfélögin þekkja betur og hafa meiri reynslu af. Mér sýnist að samkomulag sé nánast í höfn hvað varðar leiguverðið og nú er verið er að útfæra hvernig fjármögnun verður háttað en gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður fjármagni framkvæmdirnar," segir Böðvar.
Hann segist ánægður með að nú loksins sjái fyrir endann á samningum við ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis. Reykjanesbær hafi tekið frá svæði undir hjúkrunarheimilið á svæði Nesvalla og væntanlega verði mögulegt að fara af stað með hönnunarferli strax í marsmánuði. Reikna má með að framkvæmdatími geti verið um 18 mánuðir og heimilið gæti því tekið til starfa á seinni hluta næsta árs ef áætlanir ganga eftir.
----
Efri mynd: Nú hyllir loks undir byggingu hjúkrunarrýma við Nesvelli - Ljósmynd/Oddgeir Karlsson.
Neðri mynd: Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ.